Fara í efni

Samningur um lagningu ljósleiðaranets á Seltjarnarnesi

Seltjarnarnesbær og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu í gær samning um uppbyggingu ljósleiðaranets á Seltjarnarnesi. Í samningnum er gert ráð fyrir að a.m.k. 85% húsa á Seltjarnarnesi verði tengd ljósleiðarakerfi Orkuveitunnar í lok 2005 og öll hús í bæjarfélaginu verði tengd um mitt ár 2006.

Seltjarnarnesbær og Orkuveita Reykjavíkur undirrituðu í gær samning um uppbyggingu ljósleiðaranets á Seltjarnarnesi. Í samningnum er gert ráð fyrir að a.m.k. 85% húsa á Seltjarnarnesi verði tengd ljósleiðarakerfi Orkuveitunnar í lok 2005 og öll hús í bæjarfélaginu verði tengd um mitt ár 2006.

Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri og Guðmundur Þóroddsson forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur

Fyrir um ári setti Seltjarnarnesbær fram markmið um að auka samkeppnishæfni bæjarfélagsins, auka lífsgæði íbúa og um leið að bregðast við stefnumörkun ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Mikilvægt skref í þá átt er að efla aðgengi íbúa og fyrirtækja að upplýsingum og myndefni sem sífellt verður mikilvægari þáttur í nútíma samfélagi.

Orkuveita Reykjavíkur á og rekur öflugt ljósleiðaranet sem í dag þjónar fyrirtækjum og stofnunum á orkuveitusvæðinu með gagnaflutning. OR mun fjármagna, eiga og leggja ljósleiðaranet á Seltjarnarnesi á árunum 2005-2006 og reka það sem „opið net“. Opið net gerir öllum þjónustuaðilum kleift að selja íbúum margvíslega þjónustu yfir ljósleiðaranetið, t.d. síma, internet, sjónvarp, myndefni, öryggisvöktun o.fl. Þetta er gert yfir einu og sömu tenginguna sem opnar aðgengi notenda til að kaupa á hverjum tíma þjónustu að eigin vali og jafnframt að njóta efnis sem boðið er án endurgjalds.

Nú þegar hafa leiðandi þjónustuaðilar lýst formlega yfir áhuga á samstarfi eða þátttöku í að bjóða íbúum grunn- og virðisaukandi þjónustu í gegnum ljósleiðaranetið. Má þar m.a. nefna OgVodafone, Íslenska Útvarpsfélagið, Ríkissjónvarpið og Öryggismiðstöð Íslands. Þar sem undirbúningur og uppbygging á ljósleiðaraneti til heimilanna er enn í mótun má leiða að því líkum að þetta þjónustuframboð gefi aðeins forsmekkinn af því sem má vænta að verði í boði á opnu neti OR.  Stefnt er að því að opna fyrir þjónustu um netið í mars 2005.  

 

Markmið með lagningu ljósleiðaranets í öll hús á Seltjarnarnesi er að auka lífsgæði í sveitarfélaginu, tryggja gott fasteignaverð og gera stjórnsýslu ódýrari og skilvirkari með auknum tengslum við íbúana. Byggt verður upp bæjarnet í samvinnu við Orkuveituna og samstarfsaðila hennar, Cisco Systems, en þannig er ætlunin að auka verðmæti og virðisauka í sveitarfélaginu. Lögð er áhersla á að byggja gagnaflutningsnet til framtíðar þar sem bæjarbúum er kleift að einbeita sér að viðskiptalegum viðfangsefnum, listsköpun og afþreyingu án þeirra hindrana sem nú þekkjast í fjarskiptum.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?