Fara í efni

Samkomulag um hjúkrunarheimili

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi og Borgarstjórinn í Reykjavík hafa ritað heilbrigðisráðherra sameiginlegt bréf þar sem þeir óska formlega eftir að heilbrigðisyfirvöld samþykki byggingu og rekstur 90 rýma hjúkrunarheimilis á Lýsislóð.

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi og Borgarstjórinn í Reykjavík hafa ritað heilbrigðisráðherra sameiginlegt bréf þar sem þeir óska formlega eftir að heilbrigðisyfirvöld samþykki byggingu og rekstur 90 rýma hjúkrunarheimilis á Lýsislóð. Í bréfinu segir að Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg telji kjöraðstæður fyrir hjúkrunarheimili á þessum stað og sveitarfélögin lýsa sig reiðubúin til að leggja í kostnað við útvegun lóðar og byggingu langt umfram lagaskyldu. Einnig segir að flýta þurfi viðræðum þar sem fyrirhugaður byggingarreitur hjúkrunarheimilis sé í eigu einkaaðila og muni ekki standa til boða ef dregst að taka ákvörðun um verkefnið.

Upphafið að hugmynd að byggingu hjúkrunarheimilis á Lýsislóð kviknaði á fundi bæjarstjórans á Seltjarnarnesi, Jónmundar Guðmarssonar, og Íslenskra aðalverktaka í fyrra. Samkomulag hefur náðst við ÍAV um að Reykjavík og Seltjarnarnes kaupi hluta lóðarinnar og þar verði reist hjúkrunarheimili. Mun Seltjarnarnesbær eiga þar 30 rými og Reykjavík 60 rými. Beðið er viðbragða frá ráðuneyti svo hægt verði að hefja framkvæmdir en 30 rými eru talin anna heildarþörf Seltirninga fyrir hjúkrunarrými til framtíðar.




Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?