Fara í efni

Páskaföndur – Konan við 1000° – Stína stórasæng

Þriðjudag 1. apríl kl. 17-19 - Páskaföndur og prjónatrefill

Þriðjudag 1. apríl kl. 17-19 - Páskaföndur og prjónatrefill 

Páskaföndur, Konan við 1000°, Stína stórasæng, bókmenntakvöld, Sögustund, Bókasafn Seltjarnarness, Gróttutrefill

Gróttutrefillinn góði hefur nú ferðast milli nokkurra stofnana bæjarins þar sem starfsmenn og gestir hafa lagt sitt af mörkum til að hann verði sem lengstur og glæsilegastur. Stefnan er að þegar Gróttudagur rennur upp 1. maí verði hann 24 metrar að lengd, sem er hæðin á vitanum, en hann er núna um 15 metrar. Þriðjudaginn 1. apríl verður trefillinn á bókasafninu og eru allir hvattir til að taka í prjónana áður en hann heldur áfram för sinni um stofnanir bæjarins. 

Sama dag kl. 17 stýrir hinn marg-reyndi hannyrðaleiðbeinandi Ragna Ingimundardóttir, ásamt konum úr Félagsstarfi aldraðra, gerð páskaföndurs. Meðal þess sem hægt er að gera eru páskaungar úr filti eða heklaðir. Allt hráefni til efnisgerðar er frítt og á staðnum og eru ungir jafnt sem aldnir hvattir til að fjölmenna. Boðið verður upp á páskakaffi. 

Þriðjudag 1. apríl kl. 19:30 - Konan við 1000° Fáar bækur hafa vakið upp jafnblendin viðbrögð síðastliðin ár og bók Hallgríms Helgasonar, Konan við 1000° sem út kom árið 2011, en bókin verður viðfangsefnið á umfæðukvöldi bókmenntafélagsins. Söguna byggir rithöfundurinn á ævisögu Brynhildar Georgíu Björnsson, en bókinni fjallar um hina áttræðu og farlama einbúa Herbjörgu Maríu Björnsson. Hún leggur drög að dauða sínum og pantar tíma í líkbrennslu um leið og hún hjalar við minnisguðinn góða sem aldrei bregst. Samferðafólk, atburðir og uppátæki frá viðburðaríkri ævi rifjast upp og afhjúpa lífshlaup óviðjafnanlegs ólíkindatóls. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2011 og til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir árið 2013. Bókmenntafélagið er opinn félagsskapur og eru allir hvattir til að mæta. 

Miðvikudag 2. apríl kl. 17:30 - Stína stórasæng og Alþjóðadagur barnabókarinnar Alþjóðadagur barnabókarinnar er jafnan haldinn hátíðlegur 2. apríl á fæðingardegi H.C. Andersen. Af þessu tilefni mun Bókasafn Seltjarnarness stilla upp úrvali af bókum hins mæta rithöfundar og efnt verður til sögustundar og leikja. Miðvikudaginn 2. apríl kl. 17:30 les Sirrý Gunnarsdóttir söguna Stínu stórusæng eftir Lani Yamamoto en bókin var nýlega tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandsráðs. Við sama tilefni verður börnum kynnt form og innihald ólíkra bókverka með því markmiði að kynna fyrir þeim hvernig hönnun getur skipt sköpum í gerð bóka. Einnig verður alla vikuna í gangi leikur sem börnin geta tekið þátt í og eiga möguleika á bókavinningum. Börnin fá afrit af forsíðu og baksíðu uppáhaldsbóka sinna, lita hana og eiga þannig möguleika á að vera dregin út og fá verðlaun fyrir þátttökuna. 

Nesið okkar Í Eiðisskeri, sýningarsalnum inn af bókasafninu stendur nú yfir sýning Elsu Nielsen, Nesið okkar, en henni lýkur föstudaginn 4. apríl. Þar getur að líta þekkt kennileiti á Seltjarnarnesi, sem tekið hafa stakkaskiptum í stafrænni meðferð listakonunnar, sem teflir þeim saman við aðrar myndir og ljær þeim þannig nýja merkingu.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?