Fara í efni

Pálína Magnúsdóttir nýr borgarbókavörður Reykjavíkurborgar

Seltjarnarnesbær óskar Pálínu Magnúsdóttur til hamingju með nýtt starf borgarbókavarðar Reykjavíkurborgar.

Seltjarnarnesbær óskar Pálínu Magnúsdóttur til hamingju með nýtt starf borgarbókavarðar Reykjavíkurborgar.
Ásgerður bæjarstjóri sagði af þessu tilefni:,, Við Seltirningar getum verið stolt af því Pálína hafi verið fenginn til að gegna svo mikilli áhrifastöðu. Við óskum Pálínu góðs gengis á nýjum vettvangi."

 

Pálína Magnúsdóttir, bæjarbókavörður á Seltjarnarnesi, hefur verið ráðin í embætti borgarbókavarðar í Reykjavík. Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar samþykkti einróma á fundi sínum, sem haldinn var á Kjarvalsstöðum í dag, mánudaginn 25. júní, tillögu sviðsstjóra Menningar- og ferðamálasviðs þessa efnis.

16 umsóknir bárust um stöðuna sem auglýst var í maí sl. Að tillögunni stóð fagnefnd sem í sátu Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri Menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, Árni Ragnar Stefánsson, staðgengill mannauðsstjóra Reykjavíkurborgar, og Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður. Ráðningafyrirtækið STRÁ ehf.  annaðist flokkun umsókna og ráðgjöf. Samhljóða mat fagnefndarinnar er að Pálína Magnúsdóttir uppfylli best umsækjenda þau skilyrði, sem sett voru fram í auglýsingu um starfið, en þar var m.a. krafist framhaldsmenntunar á háskólastigi, að lágmarki 5 ára stjórnunarreynslu, leiðtogahæfni og þekkingar til að leiða þetta stærsta almenningsbókasafn landsins inn í nýja tíma breyttrar miðlunartækni.

Pálína er 49 ára gömul og er með háskólamenntun á sviði bókasafns- og upplýsingafræða og M.A. próf í menningar- og menntastjórnun. Í því námi lagði hún áherslu að skoða samspil stefnumótunar sveitarfélaga í menningarmálum við rekstur almenningsbókasafna. Hún hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum, en Pálína hefur gegnt stöðu bæjarbókavarðar á Seltjarnarnesi sl. 21 ár. Hún hefur leitt lítið safn til vaxtar og velgengni á mjög farsælan hátt, en það tók m.a. að sér umsjón með öllum menningarmálum Seltjarnarnesbæjar frá nóvember 2010.

Borgarbókasafn Reykjavíkur er stærsta menningarstofnunin sem Reykjavíkurborg rekur og gegnir afar mikilvægu hlutverki sem miðlunarstöð upplýsinga og fróðleiks – en ekki síður sem ein fjölsóttasta menningarstofnunin í borginni. Borgarbókasafnið rekur 6 söfn í Reykjavík auk þess að halda úti þjónustu bókabílsins Höfðingja og sögubílsins Æringja. Ríkur þáttur í starfsemi safnsins er fjölbreytt barna- og fjölmenningarstarf auk þess sem það hefur í vaxandi mæli beitt sér í ýmsum lýðræðisverkefnum s.s. í tengslum við kosningar o.fl. Árið 2011 voru heimsóknir í safnið tæplega 600 þúsund  og ánægja með þjónustu þess mældist tæp 87% samkvæmt könnun Capacent sama ár. Í sömu könnum kom í ljós að um 69% borgarbúa höfðu nýtt sér þjónustu Borgarbókasafnsins á sl. 2 árum.

Fráfarandi borgarbókavörður er Anna Torfadóttir, en hún hefur stýrt Borgarbókasafni Reykjavíkur síðastliðin 14 ár og verið einstaklega metnaðarfullur og vinsæll stjórnandi. Gert er ráð fyrir að nýr borgarbókavörður taki til starfa 1. september næstkomandi.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?