Nú er hafinn fornleifauppgröftur í landi Ness á Seltjarnarnesi en uppgröfturinn er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar við námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Frá árinu 2010 hefur Seltjarnarnesbær boðið land sitt sem kennsluvettvang fyrir fornleifafræðirannsóknir
Nú er hafinn fornleifauppgröftur í landi Ness á Seltjarnarnesi en uppgröfturinn er samstarfsverkefni Seltjarnarnesbæjar við námsbraut í fornleifafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands. Frá árinu 2010 hefur Seltjarnarnesbær boðið land sitt sem kennsluvettvang fyrir fornleifafræðirannsóknir en tilgangurinn er einnig að gera aðgengileg á einum stað gögn sem tengjast fornleifarannsóknum á safnasvæðinu sem og að veita nemendum yfirsýn yfir alla þætti fornleifarannsóknar, allt frá vettvangsrannsókn og skýrslugerð til frágangs gagna og gripa á söfnum.
Að þessu sinni fer uppgröfturinn fram við Móakot, sem er bæjarhóll norðan við Nesstofu, en þar hefur komið í ljós hlaðinn torfbær og einnig verða óútskýrðar hringamyndanir við Vesturtún rannsökuð. Uppgröfturinn stendur yfir í um fjórar vikur á vori hverju. Aðilarnir sem koma að uppgreftrinum stefna að fimm ára samkomulagi en að loknu námskeiðinu sem nú fer fram verður útbúin rannsóknaráætlun sem nær yfir allt tímabilið. Eitt af markmiðum samkomulagsins er að byggður verður upp sameiginlegur kortagrunnur yfir fornleifar svæðisins. Stefnt er að því að allar eldri rannsóknir á svæðinu verði færðar inn í kortagrunninn.