Framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis á Lýsislóðinni á horni Grandavegar og Eiðisgranda eiga samkvæmt samningi að hefjast í byrjun næsta árs. Í maí 2006 var undirritað, að frumkvæði Seltjarnarnesbæjar, þríhliða samkomulag við Reykjavíkurborg og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið um byggingu á hjúkrunarheimili á Lýsislóðinni.
Samkomulagið hljóðaði upp á að Seltjarnarnesbær legði til lóðina sem er talin andvirði hundruð milljóna króna. Þá greiðir Seltjarnarnesbær einnig 10 % af heildarkostnaði framkvæmdarinnar en ráðuneytið greiðir 70% og Reykjavíkurborg 20%.
Auk þess hefur verið gert ráð fyrir fjármagni vegna framkvæmdarinnar í fjárhagsáætlun bæjarins allt frá undirritun samkomulagsins. Þá hafa bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi fundað reglulega með samningsaðilum og lagt þunga áherslu á að unnið yrði markvisst að framkvæmd samkomulagsins.
Hefur ráðuneytið gefið til kynna áherslubreytingar varðandi byggingu og skipulag hjúkrunarheimila, en ekki staðfest breytingarnar. Þá hefur ráðuneytið hvorki lagt til breytingar á hinu þríhliða samkomulagi né riftun þess.
Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi, Jónmundur Guðmarsson, hefur sent Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra bréf með kröfu um skýringar á afstöðu ráðherra til samkomulagsins og framvindu framkvæmdanna.
Bæjaryfirvöldum á Seltjarnarnesi er umhugað um að fækka biðlistum og geta boðið öldruðum og sjúkum dvalarkost á hjúkrunarheimili við hæfi.