Fara í efni

Opnun Urtagarðs í Nesi

22. ágúst kl. 14:00 opnar Urtagarður í Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Í garðinum er safn urta sem ýmist hafa gegnt hlutverki í lækningum eða verið nýttar til næringar og heilsubótar á tímabilinu 1760-1834.

Urtagarður í Nesi22. ágúst kl. 14:00 opnar Urtagarður í Nesi við Seltjörn á Seltjarnarnesi. Í garðinum er safn urta sem ýmist hafa gegnt hlutverki í lækningum eða verið nýttar til næringar og heilsubótar á tímabilinu 1760-1834.  Hluti plantnanna tilheyrir íslenskri flóru og hefur lækningamáttur þeirra lengi verið landsmönnum kunnur. Aðrar eru innfluttar en hafa verið ræktaðar í landinu um lengri eða skemmri tíma. Leiðsögn verður um garðinn kl. 17:00 sama dag.

Urtagarðurinn er stofnaður í minningu þriggja manna sem tengdu saman ræktun og heilsubót í lífi og starfi.  Í ár eru liðin 250 ár frá skipun Bjarna Pálssonar embætti landlæknis árið 1760 og 125 ár frá stofnun Garðyrkjufélags Íslands árið 1885. Fyrsti formaður þess var Hans Georg Schierbeck þáverandi landlæknir. Björn Jónsson lyfsali var sá þriðji en hann annaðist nytja- og lækningajurtagarð í Nesi frá árinu 1768.

Urtagarður er samvinnuverkefni Seltjarnarnesbæjar , Garðyrkjufélags Íslands , Landlæknisembættisins , Læknafélags Íslands , Lyfjafræðingafélags Íslands , Lyfjafræðisafns og   Lækningaminjasafns Íslands . Ekki hefði tekist að ljúka verkefninu án þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem lagt hafa hönd á plóginn.  

Urtagarðurinn er staðsettur á safnasvæði Seltirninga við Nesstofu vestast á Seltjarnarnesi. Garðurinn verður hann rekinn sem hluti af starfsemi Lækningaminjasafns Íslands og Lyfjafræðisafnsins sem bæði eru staðsett í Nesi. Skipuð hefur verið sérstök stjórn um Urtagarðinn og er stefnt að því að garðurinn verði vettvangur fræðslu um nýtingu urta til lækninga, næringar og heilsubóta fyrr á tímum og í dag.

Í tengslum við opnun garðsins hefur verið gefinn út bæklingurinn Urtagarður í Nesi. Plöntuvísir. Plöntuvísir kostar 1000 krónur og er seldur hjá Lyfjafræðisafninu og Lækningaminjasafni Íslands . Söluandvirðið rennur óskipt til eflingar rannsókna og fræðslu í tengslum við garðinn. Útgáfa Plöntuvísis er kostuð af Lyfjafræðingafélagi Íslands .


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?