Fara í efni

Opið gagnaflutningsnet besta leiðin til að tryggja jafnræði

Fulltrúum Seltjarnarnesbæjar var í haust boðin þátttaka á alþjóðlegri ráðstefnu Cisco Systems um framtíðarsýn svæða-, borgar og bæjarstjórna um framtíðarmöguleika internettækni í tengslum við opinbera stjórnsýslu og þjónustu við íbúa.

Á ráðstefnu Cisco SystemsFulltrúum Seltjarnarnesbæjar var í haust boðin þátttaka á alþjóðlegri ráðstefnu Cisco Systems um framtíðarsýn svæða-, borgar og bæjarstjórna um framtíðarmöguleika internettækni í tengslum við opinbera stjórnsýslu og þjónustu við íbúa. Þetta var í fimmta sinn sem ráðstefnan er haldin en til hennar var boðið fulltrúum bæja og borga víðs vegar úr heiminum. Frá Íslandi komu einnig fulltrúar frá Akranesbæ og Reykjavíkurborg en auk þess kynnti Orkuveita Reykjavíkur áætlanir sínar og stefnu í gagnaflutningum.

Á ráðstefnunni kom fram að stefna Seltjarnarnesbæjar um opið gagnaflutningskerfi er lögð var fram fyrir rösku ári síðan er sú leið sem af sérfræðingum Cisco Systems er talin ein besta leiðin til að tryggja jafnt aðgengi íbúa og fyrirtækja að fullkomnum háhraðatengingum. Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, kynnti meðal annars framtíðarsýn bæjarins og niðurstöður úr viðhorfakönnun Gallup sem framkvæmd var í mars þar sem fram kom mjög mikill áhugi íbúa á þeim möguleikum sem felast í tengingu heimila við ljósleiðara.

Stefna bæjarins felur í sér að ljósleiðari er undirstaðan undir opið samskiptanet þar sem jafn aðgangur allra er tryggður. Þessi aðferð skapar gagnaflutningsnet þar sem samkeppni er óheft. Til að geta uppfyllt kröfur opins nets er nauðsynlegt að rekstraraðili netsins sé óháður þjónustuaðilum og má hann ekki vera í samkeppni við þá um viðskiptavininn. Þetta er sú stefna sem margar borgir Evrópu og víða ætla að taka varðandi uppbyggingu gagnaneta en flestar þeirra eru enn að glíma við að ryðja ýmsum vandkvæðum úr veginum sem Íslendingar þurfa ekki að kljást við.




Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?