Ómar Ragnarsson í Bókasafni Seltjarnarness
Á Degi íslenskrar náttúru, þriðjudaginn 16. september kl. 17, býður Bókasafn Seltjarnarness til stefnumóts við náttúruverndarsinnann Ómar Ragnarsson en hann fagnar afmæli sínu sama dag. Þetta er í fjórða sinn sem dagurinn er haldinn hátíðlegur en þegar Ómar varð 70 árið 2010 afréð Ríkisstjórn Íslands að helga einn dag á ári íslensku náttúrunni og valdi til þess fæðingardag Ómars vegna framlags hans til náttúruverndar.
Í dagskrá Ómars í Bókasafninu hefur hann frjálsar hendur í framsetningu sinni en mun beina sjónum að náttúruvernd, náttúru Íslands, gögnum hennar og gæðum auk þess að fjalla um náttúrufar á Seltjarnarnesi. Ómar fer hefðbundnar og óhefðbundnar leiðir í nálgun sinni og setur fram efnið í bundnu og óbundnu máli, með myndrænni framsetningu og með söng og hljóðfæraslætti. Af þessu tilefni verða bækur, tónlist og annað efni eftir Ómar haft í öndvegi á safninu.
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.