Fara í efni

Nýr samstarfssamningur Íþrótta- og tómstundanefndar við Nesklúbbinn

Á dögunum endurnýjaði Seltjarnarnesbær samstarfssamning við Nesklúbbinn en farsælt samstarf hefur verið milli ÍTS og golfklúbbsins um langt árabil.
Haukur Geirmundsson íþróttafulltrúi, Haukur Óskarsson framkvæmdastjóri NK, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri og Magnús Örn Guðmundsson formaður ÍTS.Á dögunum endurnýjaði Seltjarnarnesbær samstarfssamning við Nesklúbbinn en farsælt samstarf hefur verið milli ÍTS og golfklúbbsins um langt árabil. Samningnum er ætlað að efla samstarfið enn frekar og tryggja öflugt og markvisst íþrótta- og tómstundastarf fyrir börn og unglinga af Seltjarnarnesi í samræmi við íþrótta- tómstunda og lýðheilsustefnu bæjarins.

Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi forvarnargildis og þjónustuhlutverks Nesklúbbsins gagnvart bæjarbúum og gildi hennar sem almenningsíþróttar sem allir geta stundað í sátt við náttúruna á Nesinu. Með samningnum er tryggt að Nesklúbburinn geri sem flestum börnum og ungmennum kleift að stunda íþróttina, m.a. með því að veita þeim greiðan aðgang að því öfluga starfi sem fram fer á vellinum. Í því felst t.d. forgangur barna af Seltjarnarnesi á golfnámskeið klúbbsins en klúbburinn skuldbindur sig til að hafa kennslu fyrir börn á aldrinum 9-13 ára. 

Klúbburinn heldur úti öflugu barna- og unglingastarfi og hafa krakkar úr klúbbnum skilað sér í keppni meðal þeirra bestu á landsvísu og náð eftirtektarverðum árangri. ÍTS og golfklúbburinn munu áfram eiga gott samstarf við að kynna golfíþróttina fyrir bæjarbúum og auka þannig fjölbreytni í heilbrigðu íþrótta- og tómstundastarfi á Seltjarnarnesi. Samningurinn er til 3ja ára.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?