Bjartar og glæsilegar íbúðir fyrir sex einstaklinga
Um er að ræða búsetukjarna með sex einstaklingsíbúðum fyrir fatlað fólk ásamt starfsmannarými og sameiginlegri, bjartri sólstofu með fallegu útsýni. Heildarstærð húsnæðis er um 553 m². Það er mjög umhverfisvænt og rekstrarlega hagkvæmt auk þess sem það fellur vel inn í lóðina og nýtur sín í náttúrulegu umhverfi Valhúsahæðar. Staðsetning þess er miðsvæðis, stutt í alla þjónustu og fallega náttúru. Íbúðirnar eru mjög bjartar og vel hljóðeinangraðar. Þær henta vel fyrir hreyfihamlað fólk auk þess sem þær hafa allar sér verönd.
Húsnæðið sem er í eigu Seltjarnarnesbæjar er hannað af þeim Önnu Margréti Hauksdóttur arkitekt og Pétri Jónssyni hjá AVH samkvæmt hugmyndafræðilegum áherslum Áss styrktarfélags. AVH sá ennfremur um burðarþol og lagnir, Lúmex sá um ljósahönnun, Myrra hönnunarstofa um hljóðráðgjöf og Brunahönnun slf sá brunahönnun. Húsasmíði ehf byggði húsnæðið en byggingarstjóri og eftirlitsaðili með verkefninu fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar var Jóhann Kristinsson hjá Strendingi ehf.
Fyrstu íbúarnir flytja inn á næstu vikum
Fyrsta skóflustungan að búsetukjarnanum var tekin þann 8. desember 2021 og nú 15 mánuðum síðar er húsið tilbúið til notkunar. Gert er ráð fyrir því að fyrstu íbúarnir muni flytja inn á næstu vikum. Ás styrktarfélag mun annast rekstur starfseminnar og þjónustu við íbúa Kirkjubrautar samkvæmt þjónustusamningi sem Seltjarnarnesbær og Ás styrktarfélag gerðu nýverið með sér. Markmið samningsins er meðal annars að veita fötluðu fólki sem samningurinn nær til, bestu mögulegu þjónustu í sértækri búsetu sem tök eru á að veita hverju sinni.
Þau voru afar ánægjuleg tímamótin í dag þegar að lykillinn að Kirkjubrautinni var afhentur og ljóst að stutt er þar til að íbúar flytja inn. Undirbúningur og aðdragandi verkefnisins hefur náð yfir nokkur ár en framkvæmdirnar þegar af stað var haldið hafa gengið framar vonum.
Á myndinni eru frá vinstri: Emilía Gylfadóttir nýr forstöðumaður búsetukjarnans að Kirkjubraut, Jóhanna Ósk Ásgerðardóttir umsjónarmaður í málefnum fatlaðs fólks hjá´Seltjarnarnesbæ, Þóra Þórarinsdóttir framkvæmdastjóri Áss styrktarfélags, Ásgerður Halldórsdóttir fyrrum bæjarstjóri og ábyrgðarmaður í aðdraganda og upphafi framkvæmdanna og svo Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar.