Í ljósi tafa á malbikunarframkvæmdum á Lindarbraut vegna óhagstæðs tíðarfars var ákveðið að nýta tækifærið og setja nýja þrýstilögn fyrir skólp áður en malbikun hefst. Undirbúningur og framkvæmd við þrýstilögnina hefst í dag.
Eins og íbúar hafa orðið varir við stendur til að malbika Lindarbrautina. Þegar búið að fræsa allt malbik í burtu og gera við skemmdir. Mikil bleyta og óhagstætt veðurfar undanfarna daga hefur hins vegar sett strik í reikninginn og tafið malbikurnarframkvæmdir.
Í ljósi þessara tafa var tekin ákvörðun um að nýta tækifærið og flýta annarri framkvæmd sem var á döfinni síðar. Það er að setja nýja þrýstilögn fyrir skólp frá dælustöð við Suðurströnd að hápunkti götunnar sem er ca. við Lindarbraut 28. Þaðan tengist lögnin brunni í götu fyrir sjálfrennandi lögn sem liggur að dælustöð við Norðurströnd. Lögnin verður staðsett í austari hluta götunnar við húsin Lindarbraut 2-28.
Undirbúningur fyrir þessa framkvæmd hefst nú eftir hádegi í dag en gröftur hefst á morgun fimmtudag. Framkvæmdirnar munu standa yfir út næstu viku. Til að verkið gangi sem best fyrir sig og valdi sem minnstri truflun fyrir íbúa munu þrjú teymi sjá um framkvæmdina. Fyrsta teymið fer á undan og tekur skurðinn, annað teymi „píparar“ leggja niður lögnina í beinu framhaldi og þriðja teymið mokar yfir skurðinn, þannig mun verkið „sigla“ áfram upp Lindarbrautina.
Ekki er gert ráð fyrir lokun Lindarbrautarinnar á meðan á framkvæmdum við fráveitulögnina stendur en umferð verður þó takmörkuð auk þess sem tímabundin lokun að innkeyrslum nærliggjandi húsa mun eiga sér stað. Veitur biðja íbúa vinsamlega um að leggja ekki við götuna á meðan á framkvæmdum stendur enda verða stórvirkar vinnuvélar á svæðinu.
Um leið og þessari framkvæmd lýkur verður Lindarbrautin svo malbikuð og treystum við á að veðurguðirnir verði okkur hliðhollir þegar að því kemur.
Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum og raski sem þessar framkvæmdir kunna að valda.
Sviðstjóri skipulags- og umferðarsviðs.
Einar Már Steingrímsson.