Fara í efni

Niðurstöður rannsóknar um vímuefnaneysla ungs fólks á Seltjarnarnesi kynntar

Á fundi með foreldrum nemenda í Valhúsaskóla, þann 11. maí s.l., kynnti fyrirtækið Rannsókn og greining niðurstöður rannsóknar um vímuefnaneyslu ungs fólks á Seltjarnarnesi. Í ljós kom að ástand þeirra mála hefur verið mjög gott á Seltjarnarnesi að undanförnu. Rannsóknir hófust árið 1998 en þá var ástandið hér verra en annars staðar á landinu. Samkvæmt könnun sem lögð var fyrir nemendur í Valhúsaskóla árið 2003 hefur ástandið stórlagast og var í fyrra orðið það besta á landinu. 

Á fundi með foreldrum nemenda í Valhúsaskóla, þann 11. maí s.l., kynnti fyrirtækið Rannsókn og greining niðurstöður rannsóknar um vímuefnaneyslu ungs fólks á Seltjarnarnesi. Í ljós kom að ástand þeirra mála hefur verið mjög gott á Seltjarnarnesi að undanförnu. Rannsóknir hófust árið 1998 en þá var ástandið hér verra en annars staðar á landinu. Samkvæmt könnun sem lögð var fyrir nemendur í Valhúsaskóla árið 2003 hefur ástandið stórlagast og var í fyrra orðið það besta á landinu. 

Mjög góð samvinna hefur verið á milli þeirra aðila sem vinna að forvörnum og hefur það haft sitt að segja. Það sem skiptir þó mestu máli, þegar forvarnir eru annars vegar, er samvera og tengsl foreldra og unglinga. Rannsóknin, sem lögð var fyrir árið 2003, sýndi að unglingar á Nesinu voru oftar með foreldrum sínum í frístundum en unglingar á öðrum stöðum á landinu, þá sérstaklega drengir. Í ljós kom að á landsvísu eru drengir, frekar en stúlkur, með öðrum en foreldrum sínum í frístundum en þannig er því ekki háttað á Seltjarnarnesi!

Við vissum að síðustu þrjú árin hefur ástandið verið eins og best verður á kosið hjá okkur og rannsóknin staðfesti það. Allir hafa verið sammála um að síðustu þrír árgangar tíundu bekkinga hafa verið afbragðsfyrirmyndir og haft góð áhrif á yngri unglinga. Það eru hins vegar uppi grunsemdir um að ástandið geti verið að breytast. Það hefur heyrst hvísl um bjór og foreldralaus samkvæmi en það var eitthvað sem foreldrar tóku á upp úr 1998. Auk þess virðist foreldraröltið, sem síðustu misserin hefur gengið mjög vel, alls ekki ganga eins vel núna. 

Ef til vill er ástæðan sú að fólk er orðið góðu vant og því finnst ekki taka því að vera með eitthvert eftirlit. Krakkarnir hafa verið í svo góðum málum undanfarið.

Við hvetjum foreldra til að sofna ekki á verðinum. Foreldrar þurfa alltaf að vera vakandi gagnvart börnum sínum. Það er ekkert foreldri öruggt með barnið sitt þegar vímuefnaneysla er annars vegar.
· Foreldrar, ef barnið ykkar segir frá neyslu einhvers kunningja eða vinar og biður ykkur fyrir það, hugsið þá hvað þið vilduð að gert yrði ef þið væruð í sporum foreldra þess unglings. 
· Foreldralaus partý geta verið hættuleg, haldið áfram að banna þau. 
· Ekki gleyma að ráðfæra ykkur við foreldra vina barna ykkar þegar barnið fullyrðir að allir megi nema það.
· Látum okkur varða um vini barnanna okkar. Félagsskapur unglinga skiptir oft sköpum þegar kemur að ákvörðunum um vímuefnaneyslu. 

Á Seltjarnarnesi er starfandi samráðshópur um áfengis- og vímuvarnir. Hópurinn hefur stafað frá því 1995. Í hópnum eru fulltrúar þeirra sem koma að eða vinna með unglingum. Það eru fulltrúar skólanna (skólastjórarnir, námsráðgjafi, kennari), Selsins, kirkjunnar, Gróttu, unglingavinnunnar, Æskulýðs og íþróttaráðs, félagsþjónustunnar, lögreglunnar og heilsugæslunnar. Á fundum er farið yfir stöðuna hverju sinni og hvort grunur sé um einhverja vímuefnaneyslu, þ.e. reykingar, áfengisneyslu eða neyslu annarra vímuefna. Þá er farið yfir það sem er að gerast í forvörnum hér á Nesinu og hert á aðgerðum ef þurfa þykir.

Félagsráðgjafi er alltaf tilbúinn að ráðleggja foreldrum. Stundum getur eitt viðtal við unglinginn og foreldra hjálpað. Undirrituð er við alla virka daga í Gamla Mýrarhúsaskóla í síma 595 5130. 


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?