Fara í efni

Nesstofa opin alla daga í sumar

Nesstofa opnar á nýjan leik laugardaginn 6. júní 2009 kl. 13:00 Opin alla daga í sumar frá kl. 13:00 til 17:00. Ókeypis aðgangur

NesstofaNesstofa er eitt af elstu húsum landsins, byggð á árunum 1761– 1767 sem embættisbústaður landlæknis. Er húsið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands en í umsjá Lækningaminjasafns Íslands. Á næstu tveimur árum mun Lækningaminjasafnið byggja upp nýjar sýningar í Nesstofu sem munu fjalla um líf og lækningar í Nesi á tímabilinu 1760 til 1834. Fyrra ártalið markar stofnun landlæknisembættisins en síðara ártalið flutning landlæknis, ljósmóður og lyfjafræðings til Reykjavíkur.

Í sumar gefst gestum kostur á að kynnast byggingarsögu Nesstofu og fræðast um þær viðamiklu viðgerðir sem fóru fram í tveimur áföngum á vegum Þjóðminjasafns og Húsafriðunarnefndar undir stjórn Þorsteins Gunnarssonar arkitekts. Þá hefur verið gefinn út ítarlegur leiðsögubæklingur um húsið, en hann má meðal annars nálgast á heimasíðu Lækningaminjasafnsins www.laekningaminjasafn.is

Í Nesstofu verður einnig sýning um söfnun lækningaminja, starfsemi Lækningaminjasafns og framtíðaráform. Einnig verður kynning á fyrirhugðu húsnæði Lækningaminjasafnsins í Nesi sem Seltjarnarnesbær er að láta reisa eftir verðlaunateikningu Yrki arkitekta. Safnbyggingin mun einnig mynda glæsileg umgjörð um menningarviðburði á Seltjarnarnesi sem og þjóna þeim fjölmörgu útivistarunnendum sem daglega eiga leið um svæðið. Þar er meðal annars gert ráð fyrir kaffihúsi, safnbúð og góðri aðstöðu til funda- og ráðstefnuhalda.

Reglulega verður boðið upp á leiðsagnir um Nesstofu. Á heimasíðu Lækningaminjasafns má nálgast upplýsingar um dagskrá sumarsins.

Nesstofa verður opin alla daga í sumar á milli klukkan 13:00 – 17:00 og er aðgangur ókeypis. Hægt er að fá leiðsögn fyrir hópa utan hefðbundins opnunartíma.

Þá má benda á að Lyfjafræðisafnið í Nesi verður opið þriðjudaga, fimmtudaga, laugardaga og sunnudaga á milli klukkan 13:00 og 17:00. Aðgangur er ókeypis.

Frekari upplýsingar veitir Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir 8441035/annath@seltjarnarnes.is

Verið velkomin í söfnin í Nesi!


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?