Grunnskólanemum með lögheimili á höfuðborgarsvæðinu gefst nú kostur á að kaupa nemakort Strætó bs. en hingað til hafa þau einungis verið í boði fyrir nema á framhalds- og háskólastigi.
Nemakortið verður persónukort, sem nemar á aldrinum 6-18 ára fá keypt með staðfestingu á aldri samkvæmt þjóðskrá. Nemar 18 ára og eldri geta líkt og fyrr keypt sín kort samkvæmt staðfestingu á skólavist frá viðkomandi skóla.
„Stjórn Strætó bs. vinnur stöðugt því að bæta þjónustu fyrirtækisins og efla samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Um tíma hefur Strætó boðið námsmönnum á framhalds- og háskólastigi kaup á svokölluðu nemakorti en fram til þessa hafa grunnskólanemar á svæðinu ekki haft tækifæri til að kaupa slík kort. Komið hafa fram ábendingar, m.a. frá Umboðsmanni barna, sem og óskir frá foreldrum grunnskólanema, að nemakort verði einnig í boði fyrir nema á grunnskólastigi. Það er okkur því sönn ánægja að kynna þá ákvörðun að þetta verði að veruleika á næstu vikum. Við vonum að þessar umbætur verði grunnskólanemum og foreldrum þeirra til hagsbóta,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður stjórnar Strætó bs.
Sala á nemakortunum hefst 27. desember á http://www.strætó.is/. Þau taka gildi 1. janúar 2012 og gilda til 31. maí. Aðeins verður hægt að greiða fyrir kortið með kreditkorti. Nemakortið kostar 15.000 kr. fyrir önnina og verður sent heim til þeirra sem það kaupa.
Það eru sveitarfélögin sjö á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Hafnarfjörður, Kópavogur, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Álftanes, sem bjóða nemendum úr sveitarfélögunum þessi sérkjör.
Nánari upplýsingar um kaup á nemakorti á Netinu er að finna á http://www.strætó.is/.