Hin kunna sagna- og leikkona Guðrún Ásmundsdóttir hefur viðað að sér ótal frásögnum af konum sem hafa líknað og hjálpað kynsystrum sínum í barnsburði við fábrotnar aðstæður. Þessum frásögnum mun Guðrún deila með gestum Nesstofu næstkomandi laugardag, 20. september, kl. 15 í tengslum við sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur og Margrétar Jónsdóttur, Kláði, sviði, verkur, bólga og pirringur, sem var opnuð í Nesstofu á Seltjarnarnesi síðustu helgi.
Frásagnir sínar setur Guðrún inn í sögusvið 18. aldar á tímum Bjarna Pálssonar fyrsta landlæknis Íslendinga og beinir sjónum sínum einkum að tveimur fjölskyldum, sem bjuggu í Nesstofu, þeirra Bjarna Pálsonar og hinnar dönsku ljósmóður Margerethe Katerine Magnusen, en hún var fyrst kvenna til að kenna ljósmóðurfræðin á Íslandi.
Sýningin í Nesstofu er opin laugardaga og sunnudaga kl. 13-17 til 12.október. Aðrir viðburðir tengdir sýningunni eru erindi Ásdísar Rögnu Einarsdóttur grasalæknis um notkun og áhrif íslenskra lækningajurta laugardaginn 27. september, erindi Gunnlaugs Guðmundssonar stjörnuspekings um náttúrugen mannsins lögmál og kenningar stjörnuspeki laugardaginn 4. október og leiðsögn Kristínar Gunnlaugsdóttur laugardaginn 11. október.
Sýningin er unnin í samstarfi við Seltjarnarnesbæ í tilefni af fjörutíu ára afmæli bæjarins og Þjóðminjasafnið.
Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.