Seltjarnarnesbær gaf á dögunum út Myndlykil þar sem finna má umfjöllun um úrval listaverka í eigu bæjarins. Í bókinni fjallar Dr. Ásdís Ólafsdóttir um verkin en textinn er byggður á pistlum er birst hafa á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar, www.seltjarnarnes.is.
Seltjarnarnesbær og stofnanir á hans vegum eiga merkt safn listaverka, allt frá höggmyndum til málverka, veflistarverka og mynda unna á pappír.
Umfang og gæði safnsins er einkanlega að þakka framsækinni menningarstefnu bæjaryfirvalda og búsetu Sverris Sigurðssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur á Seltjarnarnesi. Þau hjónin, sem áttu eitt af stærstu listaverkasöfnum landsins, létu málefni bæjarfélagsins sig ávallt miklu skipta.
Bærinn á um 100 listaverk en til umfjöllunar voru valin 30 verk þar sem umfang safnsins er slíkt að ekki reyndist unnt að gera öllum verkunum skil í einni atrennu.