Seltjarnarnesbæ var á dögunum úthlutað styrk að upphæð 1,2 milljónum til sérverkefna í þágu langveikra barna og barna með ADHD-greiningu. Styrknum verður ráðstafað til tveggja verkefna, annars vegar til samstarfsverkefnis Grunnskóla Seltjarnarness og félagsþjónustu bæjarins og hins vegar til verkefnis í umsjón Grunnskóla Seltjarnarness.
Verkefnastjórn á vegum velferðarráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga auglýsti í október sl. eftir umsóknum frá sveitarfélögum um styrki til verkefna sem ætlað er að efla stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn með ofvirkni og athyglisbrest. Verkefnastjórnin tók afstöðu til 122 umsókna, en 30 aðilar fengu boð um styrk. Þegar hefur verið hafist handa við umrædd verkefni hér á Seltjarnarnesi.