Annar dagur Menningar- og listahátíðarinnar var fjölbreyttur og skemmtilegur.
Annar dagur Menningar- og listahátíðar 2011 hófst með Heilsuefningarátaki í Seltjarnarneskirkju þar sem Auðbjörg Reynisdóttir, hjúkrunarfræðingur flutti fyrirlestur. Í framhaldi var guðsþjónusta þar sem sr. Bjarni prédikaði og þjónaði fyrir altari, Katrín Pálsdóttir, formaður menningarnefndar, flutti ávarp og Birna Hallgrímsdóttir spilaði á píanó. Organisti var Friðrik Vignir Stefánsson og ritningalestra lásu Pálína Magnúsdóttir, bæjarbókavörður og Málfríður Finnbogadóttir, verkefnastjóri. Í lok messu var boðið uppá hollar veitingar í anda heilsuátaksins.
Vinnustofur voru opnar sem og sýningar á bókasafninu.
Frábærir orgeltónleikar voru í Seltjarnarneskirkju kl. 16:00 og þar lék Friðrik Vignir bæði hefðbundin og óhefðbundin verk. Hann byrjaði á Buxtehude, Bruhns og Bach en sneri sér síðan að léttara efni og hálfgerðri lírukassatónlist. Tónleikarnir voru skemmtilegir og komu mörgum áheyrendum á óvart.
Dagurinn endaði í Norðurpólnum þar sem Kvintett Ara Braga Kárasonar lék jass. Kvintettinn skipuðu auk Ara, Jóel Pálsson á saxófón, Kjartan Valdimarsson á hljómborð, Einar Valur Scheving á trommur og Þorgrímur Jónsson á bassa. Þetta voru dúndurgóðir tónleikar eins og vænta má af þessum höfðingjum.