Ár er nú liðið frá því að græna, margnota innkaupapokanum var dreift á hvert heimili á Seltjarnarnesi, en átakið var liður í því að hvetja bæjarbúa til að draga úr notkun á plasti, sem er ein helsta umhverfisváin í heiminum í dag.
Ár er nú liðið frá því að græna, margnota innkaupapokanum var dreift á hvert heimili á Seltjarnarnesi, en átakið var liður í því að hvetja bæjarbúa til að draga úr notkun á plasti, sem er ein helsta umhverfisváin í heiminum í dag. Framtakinu hefur verið vel tekið, bæjarbúar þekkjast í verslunum á pokanum og önnur sveitarfélög hafa tekið sér framtakið til eftirbreytni.
Pokinn var gerður að frumkvæði umhverfisnefndar Seltjarnarness, en bærinn gefur einnig sérhverju leikskólabarni í bæjarfélaginu grænan poka, sem er afar hentugur undir blaut útiföt og sparar notkun á plastpokum.
Margrét Pálsdóttir formaður umhverfisnefndar Seltjarnarness hefur átt veg og vanda að verkefninu ásamt Steinunni Árnadóttur garðyrkjustjóra bæjarins.
Seltjarnarnesbær vill vera í fararbroddi þegar kemur að umhverfisvitund en í opinberum stofnum eru maíspokar notaðir undir úrgang. Þá má geta þess að fyrir hvatningu Margrétar Pálsdóttur, sem gekk í öll fyrirtæki á Nesinu, lét Fiskbúðin á Vegamótum af notkun plastumbúða og pakkar nú fiskinum inn í pappír og uppskar fyrir vikið umhverfisverðlaun Seltjarnarness. Eru vonir bundnar við að önnur fyrirtæki á Nesinu taki sér fiskbúðina til eftirbreytni, enda gott mál sem lætur gott af sér leiða fyrir framtíð þessa lands.
Á myndinni halda Gróttustelpurnar Hrund og Grethe á græna umhverfisvæna
innkaupapokanum, sem allir Seltirningar fengu fyrir ári síðan.