Á morgun fimmtudaginn 1. október hefst Listavika í Bókasafni Seltjarnarness. Þetta er fyrsta Listavika bókasafnsins og verður gestum og gangandi boðið upp á margs konar listviðburði, kynningar og notalegheit frá 1.-10.október.
Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri setur Listavikuna á morgun kl. 17, þá mun Yrsa Sigurðardóttir lesa upp úr nýju óútkomnu verki. Gunnar Kvaran og Selma Guðmundsdóttir leika saman á selló og flygil. Opnuð verður myndlistasýning og fleira.
Í vikunni verður m.a. boðið upp á sögustund fyrir yngstu börnin, tónleika frá Tónlistarskóla Seltjarnarness, leshópur hittist, boðið verður í prjónakaffi, skáld mánaðarins verður kynnt og farið verður í húsagöngu með leiðsögn laugardaginn 10. október og margt, margt fleira.
Kynnið ykkur dagskrá Listaviku Bókasafnsins á viðburðardagtali bæjarins http://www.seltjarnarnes.is/ og á vef Bókasafns Seltjarnarness www.seltjarnarnes.is/bokasafn