Sumarnámskeið Seltjarnarness byrjuðu mánudaginn 12. júní. Í ár, líkt og fyrri ár eru í boði leikjanámskeið fyrir 6 til 9 ára börn, Survivor-námskeið fyrir 10 til 12 ára börn og smíðavöllur fyrir 8 ára og eldri. Hvert námskeið er 2 vikur í senn fyrir utan smíðavöllinn þar sem börnin mega koma að vild yfir allt sumarið. Alls eru fjögur námskeið yfir sumartímann og eru nú tvenn þeirra búin.
Námskeiðin hafa farið mjög vel af stað og eru börn sem og starfsmenn, ánægð með sumarið. Dagskráin hefur verið fjölbreytt og spennandi. Meðal annars hefur verið farið í bátsferðir með Björgunarsveitinni Ársæli, í fjölskyldu- og húsdýragarðinn og Slökkvistöðin heimsótt, búnar til skordýragildrur, haldnir indjánaþemadaga og orfurhetjuþemadaga, Hollendingarnir fljúgandi komið í heimsókn, hljómsveitin Bertel, haldið var dansiball og svo mætti lengi telja.
Mikil aðsókn er á námskeiðin og má t.d. nefna að á bílastæðinu fyrir framan Valhúsaskóla hefur risið lítið þorp með rúmlega 25 kofum. Föstudaginn 21. júlí mun smíðavöllurinn halda sumarhátíð kl. 13.30 þar sem öllum bæjarbúum er boðið að kíkja á kofana, fá sér pylsu og sjá skemmtiatriði frá Hollendingunum fljúgandi og hljómsveitinni Bertel.
Síðasta námskeið sumarsins hefst 24. júlí. Enn eru nokkur pláss laus og fólki bent á að hafa samband við Félagsmiðstöðina Selið, 595-9177, til að fá frekari upplýsingar. Enn fremur er hægt að skoða myndir frá fyrri námskeiðum á heimsíðu Selsins, http://www.selid.is
Með sumarkveðju, starfsfólk og börn á sumarnámskeiðum Seltjarnarness