Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, Jóhanna Einarsdóttir, forstöðumaður RannUng, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Guðrún Pálsdóttir, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, við undirritun samningsins.
Jóhanna Einarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarstofu í menntunarfræðum ungra barna við Háskóla Íslands (RannUng), og bæjarstjórar í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi undirrituðu í gær samstarfssamning um rannsóknarverkefni í leikskólum. Markmið samstarfsins er að auka þekkingu á leikskólastarfi í sveitarfélögunum og stuðla að auknum gæðum í leikskólastarfi. Um er að ræða samning til þriggja ára.
Fyrsta rannsóknin sem aðilar taka höndum saman um að vinna er um tengsl leiks við námssvið aðalnámskrár leikskóla frá 2011. Markmið rannsóknarinnar er að vinna með tengsl leiks og náms í leikskólum. Jafnframt verður skoðað hvernig leikskólakennarar, umhverfið og barnahópurinn styðja við leik barna og nám. Gengið verður út frá víxlverkun leiks og náms, þar sem leikurinn styður við nám og nám styður við leik. Starfendarannsókn og þróunarvinna verður unnin í fimm leikskólum, einum í hverju sveitarfélagi, árin 2012-2014. Leikskóli Seltjarnarness verður virkur þátttakandi í verkefninu öll þrjú árin.
Verkefnið mun hefjast í apríl 2012 með kynningum á verkefninu og fundum með starfsfólki. Vormisseri 2012 verður nýtt til undirbúnings rannsóknarinnar. Ný vinnubrögð verða síðan innleidd í skólana haustið 2012 og unnið að verkefninu skólaárin 2012-2013 og 2013-2014. Jafnframt verður gögnum safnað um framvindu og árangur og verkefnið metið. Árið 2014 verður unnið að skýrsluskrifum og kynningum á verkefninu.
Aðalmarkmið RannUng er að auka og efla rannsóknir á menntun og uppeldi ungra barna á aldrinum 0 - 8 ára og vera vettvangur fræðaþróunar á því sviði. Rannsóknarstofunni er ætlað það hlutverk að eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum, miðla þekkingu og kynna niðurstöður rannsókna á sviðinu m.a. með útgáfu fræðigreina og fræðirita og með fyrirlestrahaldi
Jón Torfi Jónasson, forseti menntavísindasviðs HÍ, Ásgerður Halldórsdóttir,
bæjarstjóri Seltjarnarness, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar
og Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar