Í morgun föstudaginn 31. október hlaut leikskólinn Mánabrekka Grænfánann í þriðja sinn. Af því tilefni var öllum þeim sem komið hafa að starfi leikskólans boðið til að fagna með börnum og starfsfólki. Börnin sungu og var mikið líf og fjör í leikskólanum enda margt um manninn.
Grænfáninn er alþjóðlegt umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um góða fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Fánann fá skólar í kjölfar verkefnavinnu sem stjórnað er af Landvernd á Íslandi og ætluð er til eflingar vitundar nemenda, kennara og annars starfsfólks skólans um umhverfismál. Þau efla þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum Leikskólastjórinn Guðbjörg Jónsdóttir segist vera mjög stolt af því starfi sem unnið hefur verið í Mánabrekku og sé það ekki síst að þakka góðu starfsfólki og foreldrasamstarfi. Áhersluþættir leikskólans eru umhverfismennt og tónlist, sem er fléttað inn í daglegt líf barnanna. Markmiðin eru að börnin upplifi fegurð náttúrunnar og hljóðheiminn í margbreytileika sínum og að þeim finnist þau vera hluti af þeirri heild. Þannig er lagður grunnur að virðingu þeirra fyrir umhverfi og náttúru og mikilvægi þess að hlúa vel að þeirri auðlind sem felst í náttúru Íslands.
Í Mánabrekku er leitast við að skapa rólegt og notalegt andrúmsloft þar sem börn og kennarar finna til öryggis. Með örvandi námsumhverfi eru börnin hvött til skapandi hugsunar og mismunandi nálgunar á viðfangsefnum bæði innandyra og utan. Þannig læra börnin að bera virðingu og umhyggju fyrir sjálfum sér, náunganum og umhverfinu.