Fara í efni

Leikskóli Seltjarnarness – innritun fyrir skólaárið 2021-2022

Umsóknafrestur er til 31. mars nk. Umsóknir sem berast eftir það fara í biðstöðu. Vegna mikillar fjölgunar barna hér  á leikskólaaldri eru börn fædd 2019 í forgangi og sem stendur óljóst hversu mörg börn fædd 2020 býðst leikskólapláss.

Nú er opið fyrir umsóknir um leikskóladvöl barna í Leikskóla Seltjarnarness en innritun barna fyrir skólaárið 2021-2022 fer fram í aprílmánuði nk. Til að eiga rétt á leikskóladvöl þarf barn að eiga lögheimili á Seltjarnarnesi. Sækja skal um leikskóladvöl á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar www.seltjarnarnes.isgegnum Mínar síðurMikilvægt er að umsóknir berist í síðasta lagi þriðjudaginn 31. mars nk. Umsóknir sem berast eftir þann tíma fara í biðstöðu og börn sem lenda á biðlista eftir plássi verða tekin inn eftir því sem pláss losna á skólaárinu.


Í fyrstu úthlutun verður brugðist við öllum umsóknum vegna barna sem fædd eru árið 2019 og þeim boðið pláss við leikskólann. Gert er ráð fyrir því að bréf þar að lútandi verði send út fyrir 7. apríl nk. og foreldrar beðnir um að staðfesta/hafna leikskóladvöl barnsins innan viku frá dagsetningu bréfsins. Hafi svar ekki borist við umræddu bréfi innan 7 daga er litið svo á að ekki sé lengur óskað eftir leikskóladvöl fyrir barnið í Leikskóla Seltjarnarness. Önnur úthlutun fer svo fram í kjölfarið og gert er ráð fyrir að bréf vegna barna sem þá fá tilboð um pláss verði sent út 16. apríl.

Vegna mikillar fjölgunar barna hér á leikskólaaldri að undanförnu liggur ekki ljóst fyrir hversu mörgum börnum sem fædd eru árið 2020 verður boðið leikskólapláss. Það mun vonandi verða ljóst síðari hluta aprílmánaðar og þá skýrist um leið hvort kemur til þriðju úthlutunar.

Athugið! Það er mikilvægt að foreldrar segi ekki upp dvalarsamningi hjá dagforeldri eða í sjálfstætt starfandi leikskólum fyrr en að fenginni staðfestingu frá leikskólastjóra um það hvort leikskólapláss sé í boði og hvenær leikskóladvöl getur hafist. Leikskólastjóri gefur síðan nánari upplýsingar um hvenær leikskóladvöl getur hafist og hvernig aðlögun verður háttað. Jafnframt viljum við benda foreldrum þess aldurshóps sem óvíst er hvort hægt sér að tryggja leikskólapláss við Leikskóla Seltjarnarness á að sækja tímanlega um pláss hjá dagforeldrum eða við sjálfstætt starfandi leikskóla.

Nánari upplýsingar og aðstoð við innritun veitir Sonja Jónasdóttir í síma 5959287. Fyrirspurnir má einnig senda á sonja@seltjarnarnes.is og mailto:leikskoli@nesid.is







Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?