Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fram til ársins 2010 var samþykkt við seinni umræðu á bæjarstjórnarfundi í byrjun febrúar. Minnihlutinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Áætlunin gerir ráð fyrir umtalsverðum framkvæmdum öll árin en jafnframt er gert ráð fyrir rekstrarafgangi af bæjarsjóði. Rekstur bæjarsjóðs Seltjarnarness hefur farið batnandi milli ára og er útlit fyrir að sú þróun haldi áfram samkvæmt áætluninni.
Tæplega 800 milljónir í framkvæmdir
Á tímabilinu er gert er ráð fyrir stofnframlagi til byggingar hjúkrunarheimilis á Lýsislóð við Grandaveg í vesturbæ Reykjavíkur á grundvelli samstarfs Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar en fyrirhugað er að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun á árinu 2009. Umfangsmiklu átaki við endurnýjun gatna og gangstétta verður framhaldið og er gert ráð fyrir að því átaki ljúki árið 2010. Búist er við að endurbótaátaki við Grunnskóla Seltjarnarness ljúki að mestu á árinu 2008. Lokið verður við endurnýjun á Sundlaug Seltjarnarness og ný líkamsræktarstöð World Class verður opnuð í haust. Að auki verður fjármagni varið til endurbóta á íþróttahúsi, bílastæðum og byggingar nýs fimleikahúss. Ný skolpdælustöð verður reist á sunnanverðu Seltjarnarnesi og þar með lokið að fullu við hreinsun á strandlengju Seltjarnarness.
Engin ný lán tekin
Niðurgreiðslu langtímalána bæjarfélagsins verður markvisst haldið áfram á tímabilinu. Langtímaskuldir bæjarins sem eru óverulegar halda áfram að lækka á sama tíma og veltufé frá rekstri eykst verulega. Áætlunin gerir ráð fyrir hóflegri íbúafjölgun á Seltjarnarnesi í tengslum við framkvæmdir á Hrólfsskálamel og við Bygggarða en tekjur af ávöxtun fjár vegna sölu byggingaréttar á Hrólfsskálamel og lands í Bygggörðum eflir getu bæjarfélagsins til að ráðast í framkvæmdir og ýmis lífsgæðaverkefni án aukinnar skattheimtu eða skuldsetningar bæjarsjóðs.