Á Seltjarnarnesi er nú hafið kerfisbundið átak sem felst í verndun kríuvarpsins og fækkun máva yfir hávarptímann, en mávurinn hefur verið skæður gestur í varplandinu í sumar. Undanfarnar vikur hafa fjölmargir aðilar komið að máli við Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og óskað eftir því að allra leiða verði leitað til að sporna við mávinum, sem hefur verið ágengari þetta sumarið. Kríuvarp þykir hafa tekist vel þetta árið og allt útlit fyrir að krían hafi nægilegt æti og því er dapurlegt að horfa upp á eyðileggingu þess af hálfu vargsins.
Á Seltjarnarnesi er nú hafið kerfisbundið átak sem felst í verndun kríuvarpsins og fækkun máva yfir hávarptímann, en mávurinn hefur verið skæður gestur í varplandinu í sumar. Undanfarnar vikur hafa fjölmargir aðilar komið að máli við Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra á Seltjarnarnesi og óskað eftir því að allra leiða verði leitað til að sporna við mávinum, sem hefur verið ágengari þetta sumarið. Kríuvarp þykir hafa tekist vel þetta árið og allt útlit fyrir að krían hafi nægilegt æti og því er dapurlegt að horfa upp á eyðileggingu þess af hálfu vargsins.
Á meðfylgjandi mynd, sem Haukur Óskarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Seltjarnarness tók á golfvellinum á Seltjarnarnesi, má sjá máv rífa í sig hálfstálpaðan kríuunga, en svo virðist sem mávurinn sé farinn að færa sig upp á skaftið og láti sér ekki ófleyga ungana nægja. Fulltrúar bæjarins hafa leitað ráða hjá Jóhanni Óla Hilmarssyni fuglafræðingi sem segir að aðeins sé ein leið fær til að ráða niðurlögum mávsins og hún felist í því að fólk hætti að brauðfæða fuglana á tjörninni. Ekki dugi að skjóta hann, eins og sumir hafa bent á. Á þessum árstíma hafa varpfuglarnir nægilegt æti og ekki þurfi að bæta við það. Brauðið laðar mávinn að og ef það er ekki á boðstólnum fari þeir eitthvert annað í leit að æti. Því munu bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi beita sér fyrir því að fólk hætti að gefa fuglunum á tjörninni brauð þar sem slíkt feli í sér mikla hættu á því að fuglavarpið nái sér ekki á strik. Nú er unnið að gerð skilta þar sem fólk er hvatt til að huga að afleiðingum brauðgjafa.
Á sama tíma er nú unnið að því á Nesinu að hreinsa burtu njóla, kerfil og lúpínu sem er orðin fyrirferðamikil á vestursvæðunum, en það er gert samkvæmt tilmælum Landgræðslu ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem hefur útbúið aðgerðaráætlun til að hefta útbreiðslu þessara plantna. Kerfillinn og lúpínan eru plöntur sem skilgreindar eru sem ágengar tegundir þar sem þær dreifa sér hratt og geta dregið úr líffræðilegri fjölbreytni. Á vestursvæðunum hefur vöxtur þeirra m.a. heft aðgengi fugla að varplandi og því mikilvægt að uppræta plönturnar eins og frekast er kostur.