Fara í efni

Kjarval og Gullmávurinn á Barnamenningarhátíð

„Listina á ekki að taka of alvarlega, til þess er hún alltof alvarlegur hlutur,“ sagði okkar ástæli málari og þjóðsagnarpersónan Kjarval eitt sinn.
Börn á barnamenningarhátíð á bókasafni„Listina á ekki að taka of alvarlega, til þess er hún alltof alvarlegur hlutur,“ sagði okkar ástæli málari og þjóðsagnarpersónan Kjarval eitt sinn. Þessi setning varð kveikjan að sýningu á verkum Kjarvals og leikþáttar um hann, sem sýnd voru á Bókasafni Seltjarnarness í dag, þriðjudaginn 23. apríl kl. 11 fyrir rúmlega hundrað áhugasöm ungmenni úr leikskólum og skólum á Seltjarnarnesi og í Reykjavík í tilefni af Barnamenningarhátíð sem hófst í dag og stendur  til 28. apríl.
 
Verkefnið sem um ræðir nefnist Kjarval og Gullmávurinn og er unnið að frumkvæði Listasafns Reykjavíkur með það að markmiði að kynna þennan einstaka málara fyrir æsku landsins. Verkefnið er byggt á hálftíma leiksýningu, sem fjallar á skemmtilegan og ferskan hátt um listamanninn, en að henni lokinni verða sýnd valin verk eftir Kjarval sem flutt verða á Bókasafnið í sérstökum sýningarkassa, sem nefnist Flakkarinn. 

Það er myndlistarmaðurinn Huginn Þór Arason sem er hugmyndasmiður að verkefninu en leikarar og kynnar eru Klara Þórhallsdóttir og Ragnar Ísleifur Bragason. Sýning verður einnig í Árbæjarsafni miðvikudaginn 24. apríl kl. 11 og daginn eftir, sumardaginn fyrsta, á Kjarvalsstöðum kl. 14.

Börn á barnamenningarhátíð á bókasafni
Börn á barnamenningarhátíð á bókasafni
Börn á barnamenningarhátíð á bókasafni

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?