Um tvo hundruð manns mættu í Jónsmessugöngu Seltjarnarness 2007 að sögn Unnar Pálsdóttur fulltrúa menningarnefndar sem leiddi gönguna ásamt Þorvaldi Friðrikssyni fornleifafræðingi.
Gangan hófst við Nesstofu á sunnudagskvöldið 24. júní sl., þar sem Þorvaldur sagði frá dularfullum hringjum í Nesstúni ásamt því fræða göngufólk um uppruna Íslendinga sem hann sagði vera að meiri hluta keltneskur en margir vissu.
Numið var staðar við gamalt hermannabyrgi á Suðurnesi frá seinni heimsstyrjöld sem hefur verið vel varðveitt.
Tími seinni heimsstyrjaldarinnar er sagnfræðilega mjög mikilvægur í Íslandssögunni og telur Þorvaldur rétt að varðveita minjar frá þeim tíma betur en gert hefur verið.
Kíkt var eftir sæskrímslum en ekki sáust þó nein, enda sagði Þorvaldur þetta ekki vera þeirra tíma. Helst er það á haustin sem skrímslin sjást kíkja upp á yfirborðið.
Næst var gengið að borholunni á Nesinu þar sem boðið var upp á hákarl, harðfisk og íslenskan hefðardrykk til að renna sjávarfanginu niður.
Valgeir Guðjónsson stýrði fjöldasöng í fjörunni við Snoppu og Þórir Baldursson spilaði undir á harmonikku. Rífandi stemmning skapaðist en lagt var af stað í heimaból fyrir miðnættið.