Árleg Jónsmessuganga menningarnefndar Seltjarnarness var farin í gær miðvikudaginn 24. júní. Yfirskrift göngunnar að þessu sinni var krakkatroðningar og malbikaðar götur.
Árleg Jónsmessuganga menningarnefndar Seltjarnarness var farin í gær miðvikudaginn 24. júní. Yfirskrift göngunnar að þessu sinni var krakkatroðningar og malbikaðar götur.
Menningarnefnd hafði falið Bókasafni Seltjarnarness að sjá um skipulagningu göngunnar í ár. Sagt var frá fólki, atburðum og fleiru sem birst hefur í bókum og tengist Seltjarnarnesi.
Gönguna leiddu Pálína Magnúsdóttir bæjarbókavörður og Málfríður Finnbogadóttir verkefnisstjóri á bókasafninu. Þá las Sólveig Pálsdóttir formaður menningarnefndar upp úr nokkrum verkum höfunda.
Gangan hófst á Bókasafni Seltjarnarness þaðan var gengið að Pálsbæjarvör, upp á Valhúsahæð um Víkurströnd, niður að Bakkavör, Suðurströnd, Lindarbraut, að Nesbala í Nesi og að Ráðagerði.
Þá var áð við hákarlaskúrinn þar sem Hitaveita Seltjarnarness bauð þreyttu göngufólki upp á þjóðlega hressingu; hákarl, harðfisk og brennivín. Göngunni lauk svo með fjöldasöng við bálköst í fjörunni við Gróttu í blíðskaparveðri svo ekki bærðist hár á höfði söngfólks.
Jónsmessugangan hefur augljóslega skipað sér fastan sess í hjörtum Seltirninga og hefur vaxið frá ári til árs. Var þátttaka gríðarlega góð og má áætla að þátttakendur hafi verið nálægt 300 þegar mest var.