Áttunda árið í röð stendur KFUM & KFUK á Íslandi fyrir verkefninu ,,Jól í skókassa” Þetta verkefni er unnið af hópi úr KFUM og KFUK og felst í því að fá börn jafnt sem fullorðna til að setja nokkrar gjafir í skókassa. Kassanum er síðan útdeilt til þurfandi barna í Úkraínu. Markmiðið með verkefninu er að gleðja þurfandi börn í anda jólanna. Það hefur sannarlega tekist síðastliðin ár og hafa þau sem standa að verkefninu fylgt því eftir og tekið þátt í dreifingu gjafanna í Úkraínu. Þar hafa þau upplifað mikla gleði barnanna með gjafirnar.
Úkraína er stórt land og þar búa um 50 milljónir manna. Atvinnuleysi er mikið og ástandið víða bágborið. Á svæðunum þar sem skókössunum er dreift er allt að 80% atvinnuleysi og fara kassarnir meðal annars á munaðarleysingjaheimili, barnaspítala og til barna fátækra einstæðra foreldra.
Fólk er hvatt til þess að taka þátt og fylgja leiðbeiningum en það er mikilvægt að börnin fái svipaðar gjafir.
Byrjið á að finna tóman skókassa og pakkið honum inn í jólapappír. Athugið að mikilvægt er að pakka lokinu sérstaklega inn svo hægt sé að opna pakkann. Ákveðið fyrir hvaða aldurshóp gjöfin á að vera, strák eða stelpu 2-4 ára, 5-9 ára, 10-14 ára og 15-18 ára og merkið með viðeigandi merkimiða á lokið. Setjið svo gjafir eins og ritföng, föt, leikföng, hreinlætisvörur og sælgæti í skókassann. Best er að setja einn hlut úr hverjum þessara flokka í kassann. Setjið að lokum 500-800 kr í umslag efst í kassann fyrir sendingarkostnaði.
Tekið verður á móti skókössum í aðalstöðvum KFUM og KFUK, Holtavegi 28, alla virka daga frá kl. 9-17. Síðasti skiladagur er laugardagurinn 12. nóvember frá kl. 11-16. Þann dag fer fram kynning á verkefninu, léttar veitingar verða í boði og eru allir hjartanlega velkomnir.
Hér er linkur á móttökustaði á landsbyggðinni http://skokassar.net/mottokustaðir
Við bendum á heimasíðu verkefnisins www.skokassar.net og Flikr ljósmyndasíðuna http://www.flickr.com/photos/skokassar/
Frekari upplýsingar hjá Björgu Jónsdóttur í síma 867 4517, eða bjorjon@gmail.com.