Jafnréttisnefnd Seltjarnarnesbæjar veitti Lyfjastofnun og leikskólunum Mánabrekku og Sólbrekku jafnréttisviðurkenningar við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness fimmtudaginn 19. mars.
Jafnréttisnefnd Seltjarnarnesbæjar veitti Lyfjastofnun og leikskólunum Mánabrekku og Sólbrekku jafnréttisviðurkenningar við hátíðlega athöfn á Bókasafni Seltjarnarness fimmtudaginn 19. mars.
Jafnréttisviðurkenning Seltjarnarness er veitt einu sinni á hverju kjörtímabili til þeirrar stofnunar eða fyrirtækis í bæjarfélaginu sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki.
Frá vinstri: Hildigunnur Gunnarsdóttir, í jafnrétisnefnd, Guðrún B. Vilhjálmsdóttir, formaður jafnréttisnefndar, Helgi Þórðarson, í jafnréttisnefnd, Guðbjörg Jónsdóttir, leikskólastjori Mánabrekku, Snorri Aðalsteinsson, félagsmálastjóri, Soffía Guðmundsdóttir, leikskólastjóri Sólbrekku og Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar (c) 2009 Ellen Calmon
Lyfjastofnun hefur gert og starfað eftir jafnréttisáætlun sem samþykkt hefur verið sem gæðaskjal og samtvinnast starfsmannastefnu stofnunarinnar. Konur jafnt sem karlar gegna stjórnendastörfum og kynjahlutföll í starfsmannahópnum eru nokkuð jöfn. Auk þess fær starfsfólk Lyfjastofnunar tækifæri til að samræma starfsskyldur og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma. Þá er jafnréttisfulltrúi starfandi hjá stofnunni.
Leikskólarnir Mánabrekka og Sólbrekka eru fyrstu vinnustaðirnir á vegum Seltjarnarnesbæjar sem gefa út jafnréttisstefnu. Jafnréttisstefnan er unnin af fagmennsku og með ríkri þátttöku starfsfólks leikskólanna. Unnin var starfendarannsókn þar sem greint var frá hvort viðmót og samskipti við börnin, milli barnanna innbyrðis, starfsfólks innbyrðis og samskipti við foreldra væru byggð á jafnréttisgrunni. Athygli var sérstaklega beint að kynjamun og staðalímyndum í samfélaginu. Þá leggja leikskólarnir áherslu á mikilvægi þess að jafnræðis sé gætt í uppeldi og skólastarfi frá upphafi og að sömu kröfur séu gerðar til beggja kynja, þannig fá allir sín sem best notið.
Við undirbúning viðurkenningarinnar voru öllum stofnunum og fyrirtækjum á Seltjarnarnesi send bréf. Með bréfinu var bæði stjórnendum og starfsfólki gefinn kostur á að tilnefna sitt fyrirtæki eða stofnun til jafnréttisviðurkenningar. Með bréfinu fylgdi gátlisti sem hægt var að hafa til hliðsjónar við yfirferð á þeim atriðum sem huga ber að í jafnréttismálum. Margar áhugaverðar tillögur bárust þar sem fyrirtæki og stofnanir höfðu sett áherslu á jafnréttismál og nokkur höfðu þegar mótað jafnréttisstefnu.