Iþróttamenn ársins 2007. Snorri Sigurðsson, Anna Kristín Jensdóttir ásamt Lárusi B. Lárussyni, formanni íþrótta- og æskulýðsráðs
Kjör Íþróttamanns Seltjarnarness fór fram fimmtudaginn 31. janúar sl. að viðstöddum fjölda manna. Kjör íþróttamanns Seltjarnarness hefur verið árviss viðburður síðan 1993 í umsjón Íþrótta- og tómstundaráðs Seltjarnarness, sem vill með þessum viðburði vekja athygli á gildi íþrótta, stuðla enn frekar að öflugu íþróttalífi á Seltjarnarnesi, forvörnum og láta íþróttafólk vita að bæjarfélagið styðji við bakið á því.
Tilnefnd til íþróttamannskjörs
Tilnefnd til íþróttamanns Seltjarnarness fyrir árið 2007 voru Anna Kristín Jensdóttir, sund, Snorri Sigurðsson, frjálsar íþróttir, Eva Margrét Kristinsdóttir, handknattleik, Skúli Jón Friðgeirsson, knattspyrna, Ausé Vysniauskaite, handknattleik.
Eva Margrét Kristinsdóttir, Skúli Jón Friðgeirsson, Snorri Sigurðsson og Anna Kristín Jensdóttir. Á myndina vantar Ausé Vysniauskaite.
Fyrir valinu urðu Anna Kristín Jensdóttir, sund og Snorri Sigurðsson, frjálsar íþróttir.
Anna Kristín Jensdóttir hefur æft sund hjá Íþróttafélagi fatlaðra, ÍFR sl. átta ár. Allt frá því hún byrjaði að æfa sund hefur hún tekið hröðum framförum og unnið til fjölda verðlauna bæði hérlendis og erlendis. Síðastliðið ár var viðburðaríkt hjá Önnu Kristínu en hún hampar nú 6 Íslandsmetum og 4 Íslandsmeistaratitlum. Anna á eitt Norðurlandamet. Anna Kristín stundar nám við Valhúsaskóla og mun ljúka 10. bekk í vor. Anna Kristín hefur lagt afar hart að sér við æfingar og keppni auk þess að vera góð fyrirmynd ungra og upprennandi íþróttamanna.
Snorri Sigurðsson er einn efnilegasti hlaupari landsins um þessar mundir og er afar öflugur og upprennandi frjálsíþróttamaður. Snorri hefur sett fjöldann allan af Íslandsmetum á undanförnum misserum auk þess að hafa unnið til margra annarra verðlauna. Snorri stundar nám við MR. Snorri leggur afar hart að sér við æfingar og keppni auk þess að vera góð fyrirmynd ungra íþróttamanna.
Afreksstyrkur
Formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Seltjarnarness Lárus B. Lárusson færði formanni knattspyrnudeildar Gróttu, Hilmari Sigurðssyni afreksstyrk að upphæð 200.000 kr fyrir góðan árangur knattspyrnudeildarinnar árið 2007.
Ungir og efnilegir íþróttamenn
Ásamt kjöri íþróttamanns ársins voru eftirfarandi viðurkenningar veittar til ungra og efnilegra íþróttamanna fyrir ástundun og árangur.
- Guðmundur Örn Árnason – golf,
- Lovísa Birta Sveinsdóttir – fimleikar
- Sigurður Guðmundsson – knattspyrna,
- Viggó Kristjánsson – knattspyrna
- Ingólfur Þráinsson – knattspyrna,
- Sindri Sigurjónsson - knattspyrna
- Tanja Stefanía Rúnarsdóttir – handknattleikur,
- Rakel Grímsdóttir – handknattleikur
- Árni Benedikt Árnason – handknattleikur,
- Aron Valur Jóhannsson - handknattleikur
- Garðar Freyr Ólafsson – sund,
- Kolbrún Jónsdóttir – sund, Lilja Dís Pálsdóttir - sund
Ungir og efnilegir íþróttamenn 2007
Landsliðsfólk
Veittar voru viðurkenningar fyrir ungt og upprennandi íþróttafólk sem t.d. hefur náð þeim áfanga að leika með unglingalandsliðum eða landsliði sinnar íþróttagreinar.
- Finnur Ingi Stefánsson – handknattleikur,
- Helga Björgúlfsdóttir – blak
- Guðrún Ósk Maríasdóttir – handknattleikur,
- Íris Björk Símonardóttir – handknattleikur
- Karólína Gunnarsdóttir – handknattleikur,
- Anna Úrsúla Guðmundsdóttir – handknattleikur
Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, Íris Björk Símonardóttir, Helga Björgúlfsdóttir og Finnur Ingi Stefánsson. Á myndina vantar Guðrúnu Ósk Maríasdóttur og Karólínu Gunnarsdóttur
Félagsmálafrömuðir
Veittar voru viðurkenningar fyrir vel unnin störf í þágu æskulýðs- og tómstundamála þ.e.a.s. félagsstörf. Þessir einstaklingar eru jákvæðar fyrirmyndir, leiðandi í félagsstarfi og búa yfir góðri samskiptatækni. Íþrótta- og tómstundaráð telur að þessi málaflokkur sé ákaflega mikilvægur.
Æskulýðsverðlaun hljóta Pétur Gunnarsson – Kristjana Zoega – Jóhannes Hilmarsson og Rannveig Smáradóttir fyrir vel unnin félagsstörf á Seltjarnarnesi.
Mikið og öflugt íþrótta- og tómstundastarf fer fram á Seltjarnarnesi sem er byggt upp að mestu leyti af stórum hópi sjálfboðaliða sem eyða miklum og ómældum tíma til þess að efla íþrótta- og tómstundamenningu bæjarins. Íþrótta- og tómstundaráð þakkar öllu því góða fólki fyrir samstarfið á liðnu ári og þeirra óeigingjarna starfi. Bæjaryfirvöld vonast að sjálfsögðu til þess að innleiðing tómstundastyrkjanna á sl. ári verði til þess að öllum börnum og ungmennum á Seltjarnarnesi verði gert kleift að sinna uppbyggilegu tómstundastarfi með tómstundastyrkjunum
Hilmar Sigurðsson, Kristjana Zoega, Pétur Gunnarsson og Rannveig Smáradóttir