Fara í efni

Íþróttafélagið Grótta hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2007

Íþróttafélagið Grótta hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2007 fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma í samvinnu við bæjaryfirvöld, grunnskóla og tónlistarskóla Seltjarnarness.

Guðmundur Árnason og Bjarni Torfi ÁlfþórssonÍþróttafélagið Grótta hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2007 fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma í samvinnu við bæjaryfirvöld, grunnskóla og tónlistarskóla Seltjarnarness.

Formaður Gróttu, Bjarni Torfi Álfþórsson veiti verðlaunum viðtöku fyrir hönd Íþróttafélagsins Gróttu. ÍTS – Íþrótta og tómstundaráð Seltjarnarness tilnefndi félagið til foreldraverðlauna í ár.

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 12. sinn, þann15. maí síðastliðinn, í Þjóðmenningarhúsi við Hverfisgötu. Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri Menntamálaráðuneytisins afhenti verðlaunin, í forföllum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.

Bjarni Torfi Álfþórsson, Hermann Ágeirsson, Guðlaug Snorradóttir og Hlynur SnorrasonAuk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt tvenn hvatningarverðlaun og ein dugnaðarforkaverðlaun. Hvatningarverðlaunin hlutu Reykjanesbær fyrir að styðja við bakið á foreldrastarfi með veitingu styrks til ráðningu verkefnistjóra FFGÍR og Guðlaug Snorradóttir og starfsfólk Nýbúadeildar við Hjallaskóla í Kópavogi, fyrir óeigingjarnt starf í þágu nýbúa. Dugnaðarforksverðlaunin hlaut Hlynur Snorrason fyrir forvarnarverkefni í Grunnskólum Ísafjarðarbæjar.

Dagskrá athafnarinnar var hin glæsilegasta, nemendur í Tónlistarskóla Seljarnarnes fluttu tónlist undir stjórn Kára H. Einarssonar og við innkomu sáu þeir feðgar, Kári og sonur hans Ari Bragi, um tónlistarflutninginn undir sviðsnöfnunum Kári litli og Lappi við mikinn fögnuð viðstaddra.

Guðmundur Árnason og Kári H. Einarsson31 tilnefningar bárust til verðlaunanna að þessu sinni og voru 24 verkefni tilnefnd. Það vildi svo skemmtilega til að það voru alls 6 verkefni tengd Seltjarnarnesinu tilnefnd í ár og eitt verkefnið fékk þrjár tilnefningar.  Það var Kári Húnfjörð Einarsson stjórnandi skólalúðrasveita Tónlistarskólans á Seltjarnarnesi sem hlaut þrjár tilnefningar frá foreldrum og foreldrafélagi Grunnskóla Seltjarnarness. 

Einnig voru eftirfarandi verkefni tilnefnd: Unnið að lýðræði í skólastarfi – Helga Kristrún Hjálmarsdóttir og Nilsína Larsen Einarsdóttir, Barna og unglingastarf í Seltjarnarneskirkju- Sr. Sigurður Grétar Helgason og Sr. Arna Grétarsdóttir, Bekkjarfulltrúinn öflugi – Helga Bryndís Jónsdóttir, Heimanámskerfið Nemanet – Ástar Kristrún Ragnarsdóttir og eins og áður sagði Íþróttafélagið Grótta fyrir samræmingu skóladags og æfingatíma.

Sjöfn Þórðardóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Björk Einarsdóttir og María Kristín GylfadóttirForeldraverðlaunin hafa unnið sér fastan sess í samfélaginu og vekja athygli á þeim mörgu verkefnum sem efla starf grunnskólanna og öflugt og jákvætt samstarf heimila, skóla sveitarfélaga  og samfélagsins alls. Aðalmarkmiðið  með veitingu Foreldraverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem unnið er á fjölmörgum sviðum í grunnskólum landsins. Í ár var sérstaklega horft til sveitarfélaga og félagasamtaka sem styðja markvisst við foreldrasamtök og foreldra í sínu sveitarfélagi. Það er í fyrsta sinn sem það er gert.

Samstarf Íþróttafélagsins Gróttu og bæjaryfirvalda er ómetanlegt eins og fram kemur í greinagerð með tilnefningu og umsögn dómnefndar.

Í greinargerð með tilnefningu segir m.a.:

Undanfarin ár hefur íþróttafélagið Grótta, í samstarfi við bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi, unnið markvisst að samræmingu skóladags og æfingatíma. Markmiðið er styttri vinnudagur barna og ungmenna og aukin samvera fjölskyldunnar. Yngstu nemendurnir í Grunnskóla Seltjarnarness hafa haft tök á því að hefja æfingar Gróttu nánast strax eftir að skóladegi líkur og svo kolli af kolli. Grótta hefur einnig haft það markmið að reyna að láta handbolta-, fótbolta- og fimleikadeildina skarast með allra minnsta móti nánast upp alla yngri flokkana og þar af leiðandi hafa margir iðkendur Gróttu getað stundað fleiri en eina íþrótt sér til heilsueflingar og skemmtunar.  Þetta hefur leitt til þess að samstarf grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttafélagsins Gróttu hefur verið samhæft eins og kostur er til að ná markmiði heilsdagsskóla. Samstarf á milli heimilis og skóla er afar gott og hjá félaginu er viðhöfð fjölskylduvæn stefna til að stytta vinnudag barnanna svo fjölskyldan geti notið fleiri samverustunda saman. Íþróttafélagið Grótta hefur einnig lagt mikinn metnað í fræðslu, gott upplýsingastreymi og samstarf við foreldra.

Umsögn dómnefndar:  Samræming skóladags og æfingatíma -  Íþróttafélagið Grótta í samvinnu við bæjaryfirvöld

Þetta verkefni miðar að því að gera skóladag barnanna samfelldan í víðum skilningi með því að skipuleggja æfingatíma í beinu framhaldi af skólanum. Það eru ekki bara börnin sem hafa ávinning af þessu verkefni – foreldrar njóta þessa einnig vegna þess að með vel skipulögðum samfelldum skóladegi fer minna fyrir því sem kalla má foreldrastrætó – öllum  tímanum og fyrirhöfninni sem fer  í að skutlast fram og til baka með börnin í íþróttir og tómstundir.

Verkefnið er til fyrirmyndar að því leyti að það hjálpar til við að stytta vinnudag barna. Skóli, foreldrar, íþróttahreyfing og sveitarfélag sem að þessu verkefni koma eiga hrós skilið.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?