Ný Íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsustefna hjá Seltjarnarnesbæ hefur nú litið dagsins ljós. Þar segir m.a. að í hverju sveitarfélagi sé mikilvægt að hafa fjölbreytt val í íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum og að almenn þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu starfi hafi óumdeilt forvarnagildi.
Ný Íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsustefna hjá Seltjarnarnesbæ hefur nú litið dagsins ljós. Þar segir m.a. að í hverju sveitarfélagi sé mikilvægt að hafa fjölbreytt val í íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum og að almenn þátttaka barna og ungmenna í skipulögðu starfi hafi óumdeilt forvarnagildi. Með stefnunni er ætlunin að treysta grunninn og móta framtíðarsýn í íþrótta-, æskulýðs- og tómstundamálum á Seltjarnarnesi.
Stefnan var unnin undir handleiðslu Gylfa Dalmanns ráðgjafa en fyrsta verkefni nefndarinnar og annarra sem að henni komu var að boða til íbúafundar. Þar komu saman allir helstu hagsmunaaðilar í málaflokknum ásamt íbúum Seltjarnarness. Út frá hugmyndum og ábendingum fundarins var stefnan unnin og samþykkt í bæjarstjórn.
Í leiðarljósi stefnunnar segir m.a. að Seltjarnarnesbær skuli leggja áherslu á að efla lýðheilsu allra aldurshópa með það að markmiði að viðhalda og bæta heilbrigði og auka lífsgæði íbúa Seltjarnarness. Eitt meginmarkmið alls forvarnarstarfs er að stuðla að því að börn og ungmenni tileinki sér heilbrigða lífshætti og því er þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi afar mikilvæg.
Rík áhersla er lögð á að öll börn og ungmenni geti stundað íþróttir óháð efnahag og einnig er gerð krafa um að aðeins hæfir og vel menntaðir einstaklingar veljist til starfa innan íþróttafélaga. Fjallað er um mikilvægi góðs samstarfs skóla og íþróttafélaga og að afreksíþróttamenn fái svigrúm til að stunda íþrótt sína á afreksstigi. Þá kemur Seltjarnarnesbær einnig til móts við þá sem stunda íþróttir innan sem utan Seltjarnarness m.a. með tómstundastyrkjum.
Hvað tómstundir varðar er markmiðið m.a. að tryggja börnum og ungmennum öruggt umhverfi þar sem unnið er markvisst gegn áhættuhegðun, svo sem einelti, ofbeldi, klámvæðingu og notkun vímuefna. Einnig verður stuðlað að eflingu og aukningu félags- og tómstundastarf allra kynslóða. Þegar kemur að lýðheilsumálum felst markmið stefnunnar m.a. í því að stofnaður verði lýðheilsuhópur sem samhæfir heilsustefnu bæjarbúa, fyrirtækja og stofnana í bænum. Einnig að aðstaða verði tryggð fyrir alhliða og fjölbreytta heilsurækt og að gott aðgengi sé að náttúruperlum og opnum svæðum.
Er starfshópnum þökkuð góð og vönduð vinna við gerð stefnunnar.