Starfshópur sem skipaður var til að skoða nám og kennslu 5 og 6 ára barna á Seltjarnarnesi lýkur senn störfum. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá leik- og grunnskólum ásamt fulltrúa frá foreldrum.
Markmiðið er að efla skólastarf á Seltjarnarnesi, með því að gera kennslu 5 ára barna enn markvissari og gera þau betur í stakk búin til að takast á við verkefni grunnskólans. Einnig að brúa bilið á milli leik- og grunnskóla og að koma enn betur til móts við þarfir 5 og 6 ára barna með aukinni samfellu í námi.
Skoðaðar eru kennsluaðferðir leikskólakennara sem vinna með elstu leikskólabörnin og grunnskólakennara í fyrsta bekk grunnskólans. Einnig voru skoðaðar námskrár beggja skólastiganna.
Áætlað er að gera drög að námskrá fyrir 5 ára börn í leikskólunum og hugmyndir eru um að kanna aðstæður fyrir 5 ára deild sem væri í nánum tengslum við grunnskólann. Hugmyndafræði leikskólans um uppeldi og kennslu yrði ráðandi og leikurinn leiðandi hugtak í námi og kennslu barnanna.
Í lögum og aðalnámskrám leik- og grunnskóla eru sambærileg markmið en ólíkar áherslur þegar kemur að útfærslum og starfsháttum.
Í leikskóla er umönnun, leikur og samskipti í brennidepli. Lögð er rík áhersla á félagsleg samskipti, skapandi starf, hreyfingu, tjáskipti, virðingu fyrir umhverfinu og nám í leik.
Í grunnskóla er lögð áhersla á ákveðnar námsgreinar, kennarastýrð verkefni og að börnin fari að fyrirmælum. Færni í samskiptum, rökræn tjáning, hugtakaskilningur, hjálpsemi og að virða reglur skipa stóran sess í grunnskólastarfinu.
Hugmyndir starfshópsins verða kynntar í Skólanefnd Seltjarnarness innan tíðar.