Höfuðborgarsvæðið verði leiðandi í skólamálum á Norðurlöndunum. Sameiginleg framtíðarsýn og aðgerðaáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu
Á blaðamannafundi SSH 17.mars voru kynntar niðurstöður tveggja skýrslna sem unnar hafa verið á vegum SSH í tengslum við Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2013. Fyrri skýrslan fjallar um gæði skólastarfs í alþjóðlegum samanburði og síðari skýrslan fjallar um samvinnu skólastiga frá leikskóla að háskóla.
Helstu niðurstöður:
- Kennarar verði metnir að verðleikum. Efnt til samstarfs við Kennarasamband Íslands og fleiri um aðgerðir til að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, samhliða bættum kjörum kennara og aðbúnaði í skólum.
- Bættur árangur í læsi og lesskilningi verði forgangsverkefni næstu ára með það að markmiði að allur þorri nemenda geti lesið sér til gagns fyrir lok þriðja bekkjar.
- Mikill meirihluti nemenda og foreldra er ánægður með starf leikskóla og grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu- ánægjuhlutfall er vel yfir meðaltali Norðurlanda.
- Áhersla á nemendamiðaðan skóla þar sem allir nemendur nái árangri í námi og byggt verði á styrkleikum og aukinni virkni nemenda sem hafi meira sjálfræði og val um eigið nám og námsframvindu. Beitt verði snemmtækri íhlutun í þágu nemenda sem þurfa á sérstakri aðstoð að halda, til að efla námslega stöðu þeirra til framtíðar.
- Sveitarfélögin bjóða til samstarfs við ríkisvaldið um aðgerðir til að draga úr brotthvarfi framhaldsskólanemenda um helming á næstu sjö árum. Ávinningur gæti hlaupið á tugum milljarða króna.
- Brotthvarf framhaldsskólanema kostar samfélagið 52 milljarða króna þar af 32 milljarða króna á höfuðborgarsvæðinu, skv. niðurstöðum hagrænnar greiningar.
- Hvatt til tilraunaverkefna um að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki að sér rekstur framhaldsskóla. Þrjú sveitarfélaganna hafa þegar lýst formlega yfir áhuga á að taka að sér rekstur framhaldsskóla á sínu svæði.
- Framhaldsskóli á forræði sveitarfélaga myndi auka samfellu náms, skilvirkni skólastarfs og gera þjónustu við nemendur markvissari, þar á meðal nemendur í brotthvarfshættu. Hins vegar gæti aðgerðin dregið úr fjölbreytni náms og bregðast þarf við áhyggjum skólafólks af því að aðgerðin gæti dregið úr sjálfstæði framhaldsskóla.
- Verkefnastjórn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í menntamálum kynnti í dag helstu niðurstöður tveggja verkefna: Gæði skólastarfs í alþjóðlegum samanburði og Samvinnu skólastiga, sem tengjast menntamálahluta Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins: Skólar og menntun í fremstu röð. Á fundinum í Austurbæjarskóla í dag kynntu fulltrúar verkefnastjórnar sameiginlega framtíðarsýn og aðgerðaáætlun verkefnastjórnar auk niðurstaðna úr greiningarverkefnum sem stjórnin lét vinna í tengslum við verkefnin.
- Þar má nefna niðurstöður greiningar á samanburði á námsárangri grunnskólanemenda á höfuðborgarsvæðinu og jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum í lestri, stærðfræði og náttúrufræði; samanburð á viðhorfum framhaldsskólanema á Íslandi og Norðurlöndunum til náms, félagslegra þátta o.s.frv.; niðurstöður greiningar á þjóðhagslegum áhrifum brotthvarfs nemenda úr framhaldsskólum og niðurstöður greiningar á fýsileika þess að færa umsjón og ábyrgð á rekstri framhaldsskóla frá ríki til sveitarfélaga.
Gæði kennslu skiptir sköpum um árangur í námi
Alþjóðlegar rannsóknir á menntakerfum í fremstu röð leiða í ljós mikilvægi gæðakennslu fyrir árangur nemenda. SSH leggja áherslu á samstarf við Kennarasamband Íslands um aðgerðir til að auka virðingu fyrir kennarastarfinu í samfélaginu og gera það eftirsóknarvert, samhliða bættum kjörum kennara og aðbúnaði í skólum.
Allur þorri nemenda geti lesið sér til gagns
Niðurstöður PISA kannana sýna að þörf er á átaki til að bæta læsi og lesskilning nemenda, ekki síst drengja en allt að þriðjungur nemenda í 10. bekk grunnskóla í Reykjavík geta ekki lesið sér til gagns. Eitt meginmarkmið SSH í skólamálum verður að efla læsi og lesskilning með það að markmiði að 90% barna í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu hafi náð viðmiðum lesskimunar fyrir lok 2. bekkjar og allur þorri nemenda geti lesið sér til gagns fyrir lok þriðja bekkjar.
Nemendamiðaður skóli – virkir og skapandi nemendur
Þær þjóðir sem fremst standa í menntamálum búa vel að sínum kennurum og tryggja virkni og sjálfræði nemenda í námi. Verkefnastjórnin leggur til að íslenskir skólar miði sínar áherslur við að auka virkni nemenda, sjálfræði yfir skipan og framvindu náms og frumkvæði í vinnubrögðum. Aukin áhersla verði lögð á verk- og listgreinar í grunn- og framhaldsskólum og sérstaklega verði skoðað hvort gefa megi nemendum í 9.- 10. bekk grunnskóla kost á að hefja starfsnám til að minnka brotthvarf og auka vægi verknáms til samræmis við menntunarþarfir atvinnulífsins.
Aðgerðir gegn brotthvarfi gætu skilað 30 milljarða ávinningi á höfuðborgarsvæðinu
Ný greining á þjóðhagslegum áhrifum brotthvarfs leiðir í ljós að þjóðfélagslegur kostnaður brotthvarfs framhaldsskólanema nemur 14 milljónum á hvern nemanda eða 52 milljörðum króna fyrir nemendahópinn í heild miðað við að tæplega 20% nemenda falli varanlega frá námi. Hlutur höfuðborgarsvæðisins er þar 32 milljarðar króna. Verkefnastjórn SSH leggur til að efnt verði til sjö ára verkefnis til að minnka brotthvarfið um helming og er talið að þær aðgerðir gætu skilað allt að 30 milljarða króna ávinningi á tímabilinu.
Áhugi sveitarfélaga að taka að sér rekstur framhaldsskóla
Fýsileikagreining leiðir í ljós að yfirfærsla framhaldsskóla til sveitarfélagsins gæti skilað aukinni samfellu náms í þágu nemenda, betri samþættingu ýmiss konar stoðþjónustu og markvissari eftirfylgni með t.d. nemendum í brotthvarfshættu. Hins vegar gæti yfirfærsla dregið úr fjölbreytni náms og bregðast þarf við áhyggjum stjórnenda og kennara framhaldsskóla um að hún kynni að draga úr sjálfstæði framhaldsskóla. Þrjú sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu: Garðabær, Reykjavík og Hafnarfjörður hafa lýst yfir áhuga á því að taka að sér rekstur framhaldsskóla með ósk um viðræður við mennta- og menningar-málaráðuneytið um heimild til að taka að sér rekstur einstakra framhaldsskóla.