Dagur umhverfisins er haldinn 25. apríl ár hvert, en þann dag árið 1762 fæddist Sveinn Pálsson, fyrsti íslenski náttúrufræðingurinn. Í Grunnskóla Seltjarnarness var haldið upp á daginn þann 27. apríl og þá tók skólinn á móti Grænfánanum.
Grænfáninn er afhentur til tveggja ára í senn en hann er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum.
Markmiðið með grænfánaverkefninu er þannig meðal annars að bæta umhverfi skólans og minnka úrgang og notkun á vatni og orku, að auka umhverfisvitund með menntun, efla alþjóðlega samkennd og tengja skólann við samfélag sitt og almenning.
Nánari upplýsingar um Grænfánann má fá á slóðinni http://www.landvernd.is/graenfaninn/ og
Í tilefni dagsins söfnuðust nemendur og kennarar ásamt skólastjórnendum saman í íþróttahúsi Seltjarnarness þar sem skólastjórinn Guðlaug Sturlaugsdóttir ávarpaði samkomuna. Þá voru veitt verðlaun vegna verkefnisins „Göngum í skólann“, þá söng skólakórinn nokkur lög og stúlknabandið Barbabelle flutti tónlist.
Grænfánunum var svo flaggað við skólahúsin og því næst var gengið fylktu liði niður að Bakkatjörn.