Fara í efni

Grunnskólakennarar á Seltjarnarnesi fá fartölvu til afnota

Seltjarnarnesbær hefur ákveðið að útvega öllum grunnskólakennurum sem kenna við skóla bæjarins fartölvur frá og með næsta hausti. Eðli kennslustarfsins er að mati bæjaryfirvalda með þeim hætti að kennarar munu hafa verulegt gagn af þeim sveigjanleika sem fartölvur skapa.

Seltjarnarnesbær hefur ákveðið að útvega öllum grunnskólakennurum sem kenna við skóla bæjarins fartölvur frá og með næsta hausti. Eðli kennslustarfsins er að mati bæjaryfirvalda með þeim hætti að kennarar munu hafa verulegt gagn af þeim sveigjanleika sem fartölvur skapa. Almenn notkun fartölva mun til dæmis auðvelda alla skráningu og umsýslu á námsframvindu nemenda og nýtast kennurum vel við skipulagningu og framkvæmd kennslu. Vinna kennara verður þannig ekki lengur bundin sértökum vinnuherbergjum eða stöðum þar sem tölvur eru staðsettar heldur geta kennarar nú sinnt þeim fjölmörgu undirbúningsverkefnum sem krefjast tölvuvinnslu þar sem best hentar.

Eftir sameiningu grunnskóla Seltjarnarness síðast liðið haust má einnig gera ráð fyrir að kennarar kjósi í auknum mæli að fara á milli bygginga til að sinna kennslu í sínum faggreinum og því geta fartölvur stuðlað að því að þeir geti nýtt sérþekkingu sína sem best. Nemendur í grunnskólum bæjarins munu þannig bæði beint og óbeint hafa hag að betri vinnuaðstöðu kennara með auknum fjölbreytileika í kennsluháttum og markvissara starfi.




Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?