Fara í efni

Grænfáninn dreginn að húni á Seltjarnarnesi

Leikskólinn Mánabrekka á Seltjarnarnesi fékk 1. desember afhentan Grænfánann í tilefni af öflugu starfi í þágu umhverfisverndar og umhverfismenntar.

GrænfániLeikskólinn Mánabrekka á Seltjarnarnesi fékk 1. desember afhentan Grænfánann í tilefni af öflugu starfi í þágu umhverfisverndar og umhverfismenntar. Grænfáninn er umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Markmiðið með verkefninu er m.a. að bæta umhverfi skólans og minnka úrgang og notkun á vatni og orku, að auka umhverfisvitund með menntun innan og utan skólans, efla alþjóðlega samkennd og tengja skólann við samfélag sitt og almenning.

GrænfániUmhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir afhenti fánann við hátíðlega athöfn á leikskólanum. Mánabrekka er fjórði leikskólinn á Íslandi sem hlýtur Grænfánann en umhverfismennt hefur verið uppeldisstefna leikskólans frá stofnun skólans, árið 1996. Í leikskólanum eru 100 börn á aldrinum 2ja - 5ára og í tilefni dagsins sungu þau og léku á hljóðfæri fyrir gestina.

GrænfániSkólar sem taka þátt í verkefninu þurfa að hafa tekið “sjö skref” til bættrar umhverfisstjórnunar. Þau eru að: skipa umhverfisnefnd við skólann, meta stöðu umhverfismála, gera áætlun um aðgerðir og markmið, sinna eftirlit og endurmati á settum markmiðum, setja námsefnið og verkefnin sem gerð eru í námskrá skólans, upplýsa aðra og hafa áhrif út á við og síðast en ekki síst gera umhverfissáttmála sem lýsir markmiðum skólans.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?