Tónlistarskólinn á Seltjarnarnesi tók stakkaskiptum í sumar og opnaði í haust í endurnýjuðu og stækkuðu húsnæði. Skólinn deildi áður húsnæði með bókasafni bæjarins en hefur nú vaxið í hluta af fyrrum húsnæði þess.
Við þessa breytingu stækkaði húsnæði skólans um helming frá því á síðasta starfsári. Laugardaginn 21. ágúst s.l. var tekið í notkun ríflega 300 fermetra rými sem áður tilheyrði Bókasafninu. Bæjarstjórn Seltjarnarness og stjórnendur Tónlistarskólans buðu Seltirningum til opnunarhófs þar sem bæjarbúum gafst tækifæri til að skoða skólann.