Eins og margir vita þá standa nú yfir löngu tímabærar endurbætur á Félagsheimili Seltjarnarness. Félagsheimilið sem vígt var árið 1971 hefur ætíð skipað sérstakan sess í hjörtum okkar Seltirninga auk þess að hafa þjónað okkur og öðrum á afar fjölbreyttan hátt í þessi 50 ár. Það var vandað afar vel til verka við hönnun og byggingu Félagsheimilisins en þrátt fyrir ýmsar lagfæringar í gegnum tíðina þá var heildstæð viðhaldsþörf orðin mjög brýn. Flest allt í húsinu enda upprunalegt og stóðst ekki lengur nútímakröfur sbr. brunavarnir, lagnir, öryggi, rafmagn o.fl.
Frá vígsluathöfn Félagsheimilisins þann 20. mars 1971
Heildarútlit eftir endurbætur verður í takt við upprunann en uppfyllir nútímakröfur og öryggisstaðla
Árið 2020 var gerð verkfræðileg ástandskönnun á Félagsheimilinu og síðar sama ár tók bæjarráð ákvörðun um að nýta samkomutakmarkanir í Covid-19 faraldrinum til að hefja vinnu við alsherjar endurbætur á húsnæðinu samhliða öðrum verkefnum á vegum bæjarins. Sértækar úttektir, ástandsmat og ráðgjöf varðandi endurbætur á einstökum verkþáttum hafa verið gerðar af viðeigandi fagaðilum eftir því sem þörf hefur krafið en í mörg horn er að líta og verkefnið viðamikið. Mikill metnaður er til þess að vanda vel til verka við endurbætur Félagsheimilisins þannig að sómi verði að eins og þegar húsið var byggt á sínum tíma. Leiðarljósið í hönnun og efnisvali er að heildarútlitið verði mjög í takt við upprunalegt útlit og hefur m.a. verið unnið með gamlar myndir og sagan skoðuð en húsnæðið mun hins vegar uppfylla nútímakröfur og öryggisstaðla. Salurinn verður áfram klæddur með sambærilegum viðarpanel og áður, huldir gluggar fá aftur að njóta sín, sviðið og barinn verða lagfærð auk þess sem hringljósin í salnum sem eru svo einkennandi fyrir útlit hans verða gerð upp og endurnýtt svo fátt eitt sem nefnt.
Endurbæturnar hófust á niðurrifi innanhúss en margt þurfti að fjarlægja sem ekki stóðst öryggiskröfur, var orðið ónýtt eða lúið t.d. var viðarklæðingin ekki eldvarin, salerniog lagnir á neðri hæðinni úr sér gengin o.s.frv. Þegar hefur verið lögð vinna margvíslegar í lagfæringar t.d. er búið að skipta um einangrun í húsinu, endurnýja vatnslagnakerfið að húsinu, loftræsikerfið lagfært og stýribúnaður þess endurnýjaður og lögð drög að endurnýjun allra raflagna sem eru barn síns tíma.
Hönnun fyrir raf-, og öryggiskerfi, lýsingu, vatnslagnir, útlitshönnun, hljóðvist o.fl liggja að mestu fyrir auk þess sem efnisval flestra verkþátta er langt komið. Unnið er að samræmingu teikninga og aðaluppdrátta en í lok sumars stendur til að bjóða út þá verkþætti er snúa að enduruppbyggingunni. Í augnablikinu ekki vitað hvenær framkvæmdir klárast en vonandi mun menningin blómstra og Seltirningar á öllum aldri njóta sín fyrr en síðar í endurbættu Félagsheimili sem við öll getum verið stolt af.
Hér má sjá nokkrar myndir sem sýna Félagsheimilið frá mismunandi tímum og tölvuteikningar af endurbættu Félagsheimili.