Á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarness sem haldinn var í gær, 18. janúar, var samhljóða samþykkt tillaga meirihlutans um enn frekari lækkun álagningarstuðuls fasteignagjalda. Með samþykktinni er tryggt að fasteignagjöld á Seltjarnarnesi eru umtalsvert lægri en annars staðar á höfuðborgarsvæðinu þrátt fyrir að fasteignir í bæjarfélaginu hækki hvað mest í nýju fasteignamati.
Við samþykkt fjárhagsáætlunar í desember s.l. var ákveðið að lækka álagningarstuðulinn í 0,30% og miðaðist sú breyting við áætlaða breytingu á fasteignamati. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur verðmæti fasteigna hækkað verulega síðustu misseri. Samkvæmt Fasteignamati Ríkisins hækkar verðmæti sérbýlis á Seltjarnarnesi þannig um 35% og fjölbýlis um 30% milli ára. Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá því í gær verður álagningarstuðull fasteignaskatts því 0,24% af fasteignamati fasteigna og þar með lægstur á höfuðborgarsvæðinu.
Fasteignatengdar álögur á Seltjarnarnesi hafa um langt skeið verið með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu en fyrir auk þess að vera með lægsta álagningarstuðulinn ásamt Garðabæ er ekki lagt á holræsagjald á Seltjarnarnesi sem sparar fjölskyldum á þar tugi þúsunda í útgjöldum á ári hverju.