Framkvæmdir á lóðinni umhverfis Nesstofu hófust skömmu fyrir páska eins og áætlað var en þær er liður í samningi Seltjarnarnesbæjar og Þjóðminjasafnsins um gagngera endurnýjun á þessu sögufræga húsi. Samkvæmt samningnum mun bærinn sjá um endurhönnun og framkvæmdir á umhverfi safnsins. Samkvæmt fjárhagsáætlun er áætlað er að leggja um 27 milljónir í verkið en framkvæmdirnar eru mjög umfangsmiklar. Þjóðminjasafnið og menntamálaráðuneytið hafa einnig skuldbundið sig til að setja sambærilega fjárhæð í að gera húsið sjálft upp en einungis lítill hluti þess er í notkun nú.
Strax við upphaf framkvæmdanna komu starfsmenn bæjarins niður á stétt eða steinkant við húsið sem kann að vera frá svipuðum tíma og það sjálft. Rannsókn mun leiða í ljós hvort um merkar fornminjar er að ræða sem unnt verður að fella inn í núverandi hönnun svæðisins. Ekki er enn þá ljóst hvort safnið verður opið í sumar en það fer eftir hvernig framkvæmdum miðar áfram.