Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir á undaförnum árum við íþróttamannvirki bæjarins og umhverfi þeirra. Skemmst er að minnast glæsilegra endurbóta á Sundlaug Seltjarnarness, byggingar gervigrasvallar og heilsuræktar World Class sem hafa stórlega bætt aðstöðu til íþróttaiðkunar og heilsueflingar fyrir bæjarbúa.
Í sumar hefur verið unnið að byggingu félagsaðstöðu og stúku við gervigrasvöllinn auk jarðvinnu við fimleikahús ásamt frágangi og fegrun á umhverfi íþróttamiðstöðvarinnar.
Suðurströnd var fegruð með sérstakri vegghleðslu meðfram knattspyrnuvellinum sem lífgar upp á umhverfi hans sem og aðkomuna í bæinn. Bílastæðum fjölgar í brekkunni upp að heilsugæslunni þar sem hellulögn og frágangur hefur staðið yfir síðustu vikur auk stæða sem gerð verða við stúkubyggingu.
Framkvæmdir vegna stúkubyggingar hafa tafist nokkuð frá upphaflegri áætlun. Áhorfendastæðið hefur þó verið tekið í gagnið og ljóst er að unnt verður að nota búnings- og félagsaðstöðuna á komandi vikum þó verkinu ljúki ekki að fullu fyrr en upp úr áramótum.