Á þriðja hundrað manns sóttu Jónsmessuhátíð sem haldin var hátíðleg á Seltjarnarnesi í gær, mánudaginn 24. júní.
Á þriðja hundrað manns sóttu Jónsmessuhátíð sem haldin var hátíðleg á Seltjarnarnesi í gær, mánudaginn 24. júní.
Jónsmessuhátíðin, sem gekk undir yfirskriftinni Draumur á Jónsmessu, hófst kl. 18:00. við safnhúsið (fyrrum Lækningaminjasafn) með því að Lóa Júlía Antonsdóttir sagði frá fornleifauppgreftri sem stóð opinn við Móakot. Hún sýndi muni sem fundust við uppgröftinn í sumar, sagði frá hvernig menn hefðu lifað þar og sýndi hleðslur sem mörkuðu hýbýli manna áður fyrr.
Frá fornleifauppgreftrinum var gengið niður að Kisuklöppum þar sem Jakob Þór Einarsson leikari las þjóðsöguna Selshamurinn við mikla hrifningu barna og fullorðinna. Börn og fullorðnir sameinuðust síðan í ratleik þar sem börnin áttu að finna út heiti á fjórum jurtum og tína þær hinar sömu á leiðinni upp að Urtagarðinum sem var næsti áfangastaður.
Í Urtagarðinum tók á móti hópnum Eva María Jónsdóttir dagskrárgerðarmaður. Hún sagði frá lækningamætti ólíkra jurta og töframætti þeirra. Sjálf hafði hún útbúið töfraseyði sem hún bauð gestum að bragða á þeim til mikillar ánægju og gleði. Þá var gestum boðið að fara inn í safnhúsið og njóta þar veitinga; samloku og drykkja í boði Hitaveitu Seltjarnarness. Brenna var tendruð og söfnuðust gestir kringum hana og sungu við harmonikkuleik Bjarka Harðarsonar.
Almenn ánægja var með breytt fyrirkomulag Jónsmessugöngunnar, en hún hefur áður verið haldin að kvöldi til, frá kl. 20:00-22:00 með öðrum áherslum. Áherslan að þessu sinni var lögð á að gera Jónsmessu að fjölskylduviðburði fyrir alla þar sem fróðleikur var í bland við leik og fjör. Börn voru því mun fleiri en áður hefur verið.