Í desember s.l. var hlaut Eiríkur Örn Arnarson höfundur forvarnarverkefnisins Hugur og heilsa verðlaunin „Upp úr skúffunum“ sem veitt eru í samstarfi Rannsóknarþjónustu HÍ, Tæknigarðs, rektors HÍ og A&P Árnasonar einkaleyfastofu. Skólanefnd Seltjarnarness hóf stuðning við verkefnið þegar við upphaf þess árið 1999 er Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, var formaður nefndarinnar. Síðan þá hefur nemendum Valhúsaskóla árlega verið boðið upp á forvarnarnámskeið gegn þunglyndi.
Tilgangur verkefnisins er þróa heildrænt kerfi sem auðveldar starfsfólki í félags-, skóla og heilbrigðisgeiranum að veita ungu fólki markvissa aðstoð til að koma í veg fyrir þunglyndi. Það er gert með því að meta áhættuþætti og veita ráðgjöf varðandi þá þau viðhorf og venjur sem síðar á lífsleiðinni geta leitt til þunglyndis. Aðferðafræðin og námsefnið hefur verið þróað og prófað með góðum árangri. Eftirfylgni með þeim sem setið hafa námskeið hefur sýnt að einungis 4,5% þeirra hafa þróað með sér mörg einkenni þunglyndis, en til samanburðar hafa um 19,5% þeirra sem ekki hafa setið námskeið þróað með sér þessi einkenni þunglyndis.
Þunglyndi er alvarlegt vandamál. Talið er að um helmingur ungmenna sem greinast með mörg einkenni þunglyndis á aldrinum 14-15 ára fái sitt fyrsta þunglyndiskast fyrir tvítugt. Neikvæður þankagangur sem einkennir þunglyndi er talinn mótast á táningsaldri. Verkefnið styðst við aðferðir hugrænnar ateferlismeðferðar (HAM) í meðferð þunglyndis og er sjónum beint að viðbrögðum ungmenna við vandamálum. Námsefni sem hefur verið þróað miðar að því að kenna unglingum að taka á niðurrifshugsunum og neikvæðum skýringarstíl; með því að hafa áhrif á hugsun og hegðun og þannig sé hægt að breyta líðan. Félagsfærni er þjálfuð og úrlausn vandamála kennd. Um hópstarf er að ræða, ungmennin vinna saman, fá fræðslu og leiðbeiningar.