Fara í efni

Foreldrafélag Mýrarhúsaskóla tilnefnt til foreldraverðlauna Heimilis og skóla.

Foreldrafélag Mýrarhúsaskóla var tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla 2005. Í móttöku sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu tók formaður foreldrafélagsins, Sjöfn Þórðardóttir, á móti viðurkenningu fyrir hönd stjórnarinnar frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra.

Foreldrafélag Mýrarhúsaskóla var tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla 2005. Í móttöku sem haldin var í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu tók formaður foreldrafélagsins, Sjöfn Þórðardóttir, á móti viðurkenningu fyrir hönd stjórnarinnar frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Tilnefning er mikil hvatning og efling fyrir alla foreldra barna í Mýrarhúsaskóla og viðurkenning fyrir vel unnin störf á síðastliðnum árum, bæði fráfarandi stjórnarmanna sem og nýrra.

Tilnefndir til foreldraverðlauna 2005
Efling foreldrasamstarfs og aukið upplýsingaflæði á milli heimila og skóla - Mýrarhúsaskóli

Verkefnið sem Foreldrafélag Mýrarhúsaskóla vinnur að heitir Efling foreldrasamstarfs og aukið upplýsingaflæði á milli heimila og skóla. Ákveðin endurnýjun hefur átt sér stað í foreldrasamfélaginu á Seltjarnarnesi og allir nýir í stjórn.  Þannig að það var ákveðið að búa til lög um það hvernig bekkjartenglar eða bekkjarfulltrúar tengdust betur foreldrafélaginu.  Það þótti ekki nægjanleg virkni hjá fulltrúum foreldra í bekkjunum svo ákveðið var að leggja drög að lögum sem mundu auðvelda flæðið þar á milli.  Einnig var ætlunin að auka tengsl umsjónarkennara við bekkjarforeldra sem og nemenda.  Í Mýrarhúsaskóla eru umsjónarkennarar nánast alltaf  með á öllum bekkjarskemmtunum skólans, auk þess sem þeir sjá almennt um eina skemmtun sjálfir á hverjum vetri.  Foreldrafélagið og foreldraráðið hafa þegar ákveðið að hittast ásamt skólastjórnendum einu sinni í mánuði til að samræma alla hluti og halda stöðugu upplýsingaflæði.

Forvarnarsjóður Seltjarnarness styrkir verkefnið og foreldrar í Mýrarhúsaskóla eru mjög áhugasamir um skóla barna sinna.  Foreldrar gera sér vel grein fyrir mikilvægi samvinnunnar á milli heimilis og skólans og sýna það í verki með því að semja þessi lög.

Aðalmarkmiðið með veitingu Foreldraverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla starfi sem unnið er á fjölmörgum sviðum í grunnskólum landsins. Við veitingu verðlaunanna er sérstaklega litið til verkefna sem hafa eflt samstarf foreldra og skólastarfsmanna og komið á uppbyggjandi hefðum í samstarfi þessara aðila. Einnig er litið til verkefna sem hafa eflt tengsl heimila, skóla og æskulýðsstarfs í gegnum forvarnarstarf eða hafa stuðlað að samræmdu átaki við lausn á vandamálum innan viðkomandi skólasamfélags.

Fjörtíu og ein tilnefning barst til verðlaunanna að þessu sinni.  Dómnefnd skipuðu Kristín Þorleifsdóttir stjórnarmaður í Heimili og skóla, sem var formaður dómnefndar,  Brynja Sigfúsdóttir stjórnarmaður í Heimili og skóla, Sigurveig Sæmundsdóttir skólastjóri Flataskóla, Guðrún Edda Bentsdóttir kennsluráðgjafi hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, Sigríður Einarsdóttir verkefnisstjóri við Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands, Iðunn Antonsdóttir grunnskólafulltrúi á Ísafirði og Pétur Valdimarsson stjórnarmaður í SAMKÓP.

Verðlaunahátíðin með því að nemendur Nýja tónlistarskólans glöddu eyru gesta með ljúfum tónum.  María Kristín Gylfadóttir formaður Heimilis og skóla setti síðan athöfnina og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra flutti ávarp.  Að ávarpi hennar loknu fluttu Nemendur Nýja tónlistarskólans meiri tónlist og síðan gerði Kristín Þorleifsdóttir formaður dómnefndar grein fyrir þeim tilnefningum sem bárust til verðlaunanna að þessu sinni.  Athöfninni lauk með því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir afhenti verðlaunin.  Séra Bjarni Karlsson hlaut verðlaunagrip Foreldraverðlaunanna sem gerður var af Óðni Björgvin Bollasyni myndlistarmanni.  Einnig var honum og öðrum verðlaunahöfum afhent innrömmuð viðurkenningaskjöl ásamt blómvendi.


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?