Safnanótt fór fram á Seltjarnarnesi föstudaginn 8. febrúar og fór öll dagskráin fram í Bókasafni Seltjarnarness, sem er helsta menningarmiðstöð Seltirninga.
Sýning Siggu Heimis Ljósasjó var opnuð í Eiðisskeri og auk þess að vera með leiðsögn um sýninguna tvisvar um kvöldið þá stýrði Sigga fjölskyldusmiðju þar sem sköpunargleði og ímyndunarafl léku stórt hlutverk í gerð ljósaskerma. Þessi ljós eru nú til sýnis í Bókasafninu en hönnuðurnir geta nálgast þau um miðjan mars.
Kór Valhúsaskóla, Meistari Jakob, er skipaður hæfileikaríkum söngvurum sem sungu sig inn í hjörtu gesta undir styrkri stjórn Ingu Bjargar Stefánsdóttur og undirleik Friðriks Vignis og Melkorku Gunborgar Briansdóttur, eins kórfélagans.
Salsamafían sýndi nýjustu sveifluna í salsa og kenndi gestum einfaldan dans sem fjölmargir tóku þátt í. Á annað hundrað manns sóttu Safnanótt sem stóð frá kl. 19-24.
Sýning Siggu Heimis, Ljósasjó, stendur yfir í Bókasafninu til 18. mars og er opin á opnunartíma safnsins.
Hér má sjá myndir frá Safnanótt.