Fara í efni

Fjölmenni á skólaþingi

Skólaþing 2011

Góð stemning var meðal á annað hundrað manns sem lögðu leið sína í Valhúsaskóla miðvikudaginn 2. mars og tóku þátt í Skólaþingi Seltjarnarnesbæjar.

Skólaþing 2011Góð stemning var meðal á annað hundrað manns sem lögðu leið sína í Valhúsaskóla miðvikudaginn 2. mars og tóku þátt í Skólaþingi Seltjarnarnesbæjar. Í tengslum við endurskoðun skólastefnu bæjarins var hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu og öðrum bæjarbúum boðið upp á þennan vettvang til þess að koma á framfæri hugmyndum og skoðunum, sem móta skulu áherslur í skólastarfi á Seltjarnarnesi.

Í upphafi þings flutti Ólafur Helgi Jóhannsson, lektor á Menntavísindasviði HÍ, erindi um mikilvægi þess að hafa framtíðarsýn í skólastarfi. Fulltrúar Ungmennaráðs Seltjarnarness komu með innlegg í umræðuna, byggt á reynslu þeirra af skólagöngu á Seltjarnarnesi og hvernig hún gagnast þeim í framhaldsnámi. Auk þess bárust þátttakendum á þinginu kveðjur og hugleiðingar frá nemendum í 10. bekk Grunnskóla Seltjarnarness og Margréti Sigurðardóttur, forstöðukonu í Selinu, en þau voru stödd á Dalvík í skíðaferð.

Skólaþing 2011Virk þátttaka einkenndi vinnuna á þinginu, sem haldið var að hætti þjóðfunda. Þátttakendur mynduðu vinnuhópa og ræddu hvaða gildi þeir vildu sjá sem hornsteina í skólastarfi. VIRÐING – ÁBYRGÐ og GLEÐI voru valin sem grunngildi, sem líta ber til við endurskoðun skólastefnu bæjarins. Fjörugar umræður fóru fram um markmið í skólastarfi og leiðir til að ná settum markmiðum.

Hver vinnuhópur valdi þrjú markmið sem hann taldi mikilvægust í skólastarfi, ásamt því að koma sér saman um hvaða leiðir mætti fara til að ná settu marki. Meðal fjölmargra hugmynda sem komu fram varðandi markmið í skólastarfi má nefna að efla læsi, viðhalda forvitni barna, virkja sköpun og gagnrýna hugsun meðal nemenda, auk þess sem fjárframlög til skólanna skuli friðlýst.

Að Skólaþinginu loknu mun vinnuhópur vinna úr afrakstri þingsins til endurmótunar heildstæðrar skólastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ. Í þeirri vinnu verður auk þess litið til hugmynda og ábendinga sem skila sér í „hugmyndakassa“, sem finna má á heimasíðu bæjarins. Þátttakendum á Skólaþingi verður boðið upp á að kom að eftirfylgni við þingið þar sem þeir fá send drög að endurskoðaðri skólastefnu til umsagnar, þegar þau liggja fyrir.

Hægt er að sjá myndir frá Skólaþingi í Ljósmyndasafni Seltjarnarness


Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?